139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn fréttamanns hjá RÚV -- atvinnumál -- aðildarumsókn að ESB o.fl.

[14:30]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil blanda mér aðeins í þessa umræðu um Ríkisútvarpið og stöðu fréttamanna. Við höfum kannski ekki miklar forsendur hér á þessum vettvangi til að dæma, hvorki stöðu fréttamannsins í þessu tilfelli né aðgerðir yfirstjórnar Ríkisútvarpsins gagnvart honum. Ég hef vissan skilning á því sjónarmiði að yfirmenn fréttamanns þurfi að hafa vitneskju um náin tengsl hans við einstakling sem er áberandi fréttaefni á hverjum tíma.

Það sem mér finnst kannski öllu skipta í þessu, og meiru, er að þetta mál er starfsmannamál hjá Ríkisútvarpinu og innra málefni stofnunarinnar og mér finnst ekki að Alþingi Íslendinga eigi beint að blanda sér í slík mál. (Gripið fram í: Ríkisstofnun …) Ég hef — já, þetta er vissulega ríkisstofnun en ríkisstofnanir hafa starfsmannaforræði. Það er bara þannig. Löggjafarsamkundan á kannski ekki að blanda sér í slík málefni. (Gripið fram í.) Alveg á sama hátt og við eigum ekki og getum ekki blandað okkur í fréttamat Ríkisútvarpsins. Ég hef persónulega skoðun á því. Mér varð mjög um á dögunum þegar dregin var til baka frétt þar sem rætt var við skuldugan einstakling sem var ánægður með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum. Frétt hans var dregin til baka vegna tengsla hans við stjórnmálaflokk (Gripið fram í: VG.) (Gripið fram í.) sem hann hafði haldið leyndu. Nú er verið að segja upp starfsmanni vegna viðtalsbókar sem varðar einstakling sem yfirmenn stofnunarinnar vissu ekki um. [Frammíköll.] Ég bendi á að allt orkar tvímælis þá gert er og þarna er um innri málefni stofnunarinnar að ræða sem við eigum ekki að blanda okkur í. (Gripið fram í.)

Eins varð mér svolítið um þegar ég sá fréttaflutning Ríkisútvarpsins í gær um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á Suðurnesjum þar sem fyrsta eða önnur frétt var skoðun Sjálfstæðisflokksins á því máli og sú afbökun sem flutt var á því máli úr ræðustóli á Alþingi. (Forseti hringir.) Það var orðið aðaltilefni umfjöllunarinnar og sjálfstæð frétt. Á þessu höfum við persónulegar skoðanir en (Forseti hringir.) sem Alþingi getum við ekki blandað okkur í þessi mál, finnst mér. (Gripið fram í: … fréttamatið á …)