139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

fyrirkomulag umræðna um störf þingsins.

[14:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hér komi ágætlega fram að við þurfum eitthvað að líta á þennan lið. Ég hvet virðulegan forseta til að gera það, einfaldlega vegna þess að ef menn fara núna bara frá þessari umræðu eru mörg álitaefni uppi. Erfitt hefur verið fyrir þá aðila að svara fyrir sig sem orðum var í raun beint til. Hér sagði t.d. hv. þingmaður að fréttastjóri Ríkisútvarpsins hefði ekki vitað af bók sem viðkomandi fréttamaður hefði skrifað. Það er ekki rétt en það er kannski aukaatriði í þessu.

Ég vil vísa sérstaklega til þess að hv. þm. Róbert Marshall gagnrýndi áðan málflutning okkar sjálfstæðismanna í gær. Við höfum hins vegar engin tækifæri til að svara því og ef hv. þingmaður hefði hlustað á málflutning okkar í gær hefði hann vitað að við fórum fram á svör í þessum málum, hvort sem það eru álver, gagnaver, heilbrigðisþjónustan eða uppbygging á Keflavíkurflugvelli Þetta átti hv. þingmaður að vita og vaninn hefur verið sá að ef þingmenn vilja eiga (Forseti hringir.) orðaskipti við aðra þingmenn geri þeir það fyrir fram. Ef menn ætla að breyta því verður að gefa mönnum tækifæri (Forseti hringir.) til að svara fyrir sig og ég hvet forseta til að beita sér fyrir því að það verði gert.