139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[14:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að hún sé mikilvæg og það er mikilvægt að við ræðum þessi málefni hér reglulega.

Mig langar að hafa nokkur orð um framvinduskýrslu Íslands sem nýlega var kynnt og byrja á máli hæstv. utanríkisráðherra þegar hann sagði áðan að hann væri þeirrar skoðunar að ekki væri aðlögun í gangi. Þarna hefði vissulega þurft Stefan Füle til að grípa fram í fyrir hæstv. utanríkisráðherra, rétt eins og gerðist í Brussel, til að leiðrétta hann.

Í framvinduskýrslu Íslands er komið inn á ýmis atriði sem Ísland þurfi að fara að vinna að. Eitt af því sem áhyggjum er lýst yfir í þessari framvinduskýrslu er hversu hægt gangi að undirbúa að koma af stað vinnu við að stofna greiðslustofnun í landbúnaði sem er 600–700 manna vinnustaður sem þarf ef við tökum upp styrkjakerfi Evrópusambandsins. Í þessari sömu skýrslu er jafnframt fjallað um að þessi vinna þurfi að fara í gang og þessi stofnun þurfi að vera komin hér upp áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram.

Þegar ég fór að skoða þessa skýrslu og fletta henni upp ráfaði ég inn á framvinduskýrslu Króatíu sem er í sambærilegu ferli og Ísland. Þar eru ákveðin atriði sem eru mjög fróðleg og ég held að allir ættu að kynna sér. Þar kemur m.a. fram að í því ferli sem Króatía er í núna setur Evrópusambandið skilyrði um það sem Króatía þarf að uppfylla áður en samningaköflum verður lokað og þjóðaratkvæðagreiðsla fer ekki fram fyrr en löngu eftir það. Hluti af þeim skilyrðum sem þar eru er að búið verði að setja upp greiðslustofnun og hún komin í fullan gang. Landskráningarkerfi þurfa að vera tilbúin, og þau þarf til að taka upp styrkjakerfi Evrópusambandsins, og allt markaðseftirlit sem þarf um leið og við göngum í Evrópusambandið verður líka að vera klárt. Þar kemur skýrt fram að um aðlögun sé að ræða.

Af því að hæstv. utanríkisráðherra talaði um að allt væri þýtt vil ég enda þetta á því að það er algert tímaspursmál hvenær baklandið brestur fyrir þessari umsókn og það er best að hæstv. (Forseti hringir.) utanríkisráðherra, og eins Evrópusambandið sjálft, átti sig á því sem fyrst. Ég vona að þessi orð verði þýdd og komin til Brussel (Forseti hringir.) fyrir dagslok.