139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[14:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Hæstv. utanríkisráðherra talaði með hefðbundnum hætti eins og hann hefur talað um þetta ferli, að þetta sé í undirbúningsfasa, (Gripið fram í: Hefðbundin stjórnmál.) að engin aðlögun sé hafin. Þetta hljómar allt saman mjög kunnuglega, að aðlögunin fari ekki fram fyrr en samningur hefur verið staðfestur í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar sem hæstv. ráðherra vísaði til einu sinni sem oftar sem leiðsagnar sinnar kemur m.a. fram að köflum er ekki lokað fyrr en ákveðnum markmiðum er náð með innleiðingu löggjafar í umsóknarríkinu. Þetta er kafli 5.5, hæstv. utanríkisráðherra til glöggvunar. Þetta kemur reyndar ekki á óvart enda, eins og hv. málshefjandi vék að í ræðu sinni, er þetta skýrt sett fram í ramma samningaviðræðna ESB við Ísland frá 27. júlí. Svona er þetta líka í öðrum löndum og dæmið sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason nefndi um Króatíu er því til stuðnings.

Hæstv. utanríkisráðherra skrifaði Bændasasmtökunum bréf um daginn og sagði þar, með leyfi forseta:

„Meginreglan er sú að í viðræðum verða lagðar fram áætlanir um aðlögun en útfærsla þeirra í framkvæmd er ekki áformuð nema samþykkt um samþykki.“

Þetta er í samræmi við það sem sagt var hér áðan. Ég spyr utanríkisráðherra í ljósi þess sem hér hefur komið fram: Hvar og hvenær ákvað Evrópusambandið að haga aðildarviðræðum við Ísland með öðrum hætti þannig að meginreglan sé sú sem hann lýsir í bréfinu til Bændasamtakanna og kom fram áðan, þ.e. að í aðildarviðræðum verði lagðar fram áætlanir um aðlögun en útfærsla þeirra í framkvæmd ekki áformuð nema að samþykktum samningi sem er allt annar háttur en hafður er á í aðildarumræðum við önnur umsóknarríki? Það passar ekki við það sem kemur fram í meirihlutaáliti, leiðarljósi hæstv. utanríkisráðherra, og passar ekki við neinar upplýsingar á heimasíðum framkvæmdastjórnar ESB og gengur þvert gegn ramma samningaviðræðna við Ísland sem var lagður fram 27. júlí sl.

Hvar og hvenær ákvað Evrópusambandið þetta og hefur (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra tök á því að koma þeim gögnum, þessu til staðfestingar, frá Evrópusambandinu til okkar, (Forseti hringir.) hv. þingmanna?