139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[15:09]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa blandað sér í þessa umræðu, það er gott að heyra að mönnum þyki mikilvægt að ræða þessi mál. Ég óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra fari betur yfir það í seinni ræðu sinni hvers vegna aðrar leiðir eru færar okkur Íslendingum í þessum viðræðum en öðrum þjóðum miðað við það ferli sem Evrópusambandið boðar sjálft að þjóðir fari í þegar þær hafa lagt inn umsókn. Mér þykir það ekki hafa komið nægilega skýrt fram. Ég heyri á hæstv. utanríkisráðherra að hann telur að engin aðlögun sé í gangi, en ég held að Evrópusambandið sé ekki á sama máli, miðað við þær upplýsingar sem finna má á heimasíðu þeirra og það sem fram hefur komið í skýrslum þess.

Er kannski verið að taka saman lista yfir hvaða lögum og reglum þurfi að breyta þannig að þegar og ef þjóðaratkvæðagreiðslan fer þannig og þjóðin ákveður að ganga í ESB, liggi fyrir langur listi yfir hvaða lögum og reglum þarf að breyta, hvaða stofnanir þarf að setja á fót o.s.frv.? Að þá verði fyrst hafist handa við að fara í slíkar aðgerðir? Það er þá eitthvað nýtt í umræðunni. Hvað tekur það langan tíma að mati hæstv. utanríkisráðherra? Hver er þá tímalínan? Er ferlið það að aðlögunarviðræðum ljúki án þess að við höfum uppfyllt þau viðmið sem Evrópusambandið sjálft segir að við þurfum að uppfylla? Að þá liggi fyrir einhver aðgerðalisti yfir mörg atriði sem breyta þarf eftir þjóðaratkvæðagreiðslu, verði farið í þessar breytingar, sem taka væntanlega einhver ár? Er það ferlið sem hæstv. utanríkisráðherra sér fyrir sér?

Í nýjustu framvinduskýrslunni er krafist skýrslu frá ríkisstjórninni sem kallast „Pre-accession physical surveillance-skýrsla“ sem skila á fyrir janúarlok. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra örstutt í lokin: Getur hæstv. utanríkisráðherra upplýst okkur um (Forseti hringir.) hvað þar er á ferðinni?