139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

staða viðræðna Íslands við ESB.

[15:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem mér finnst hafa verið málefnaleg og öllum spurningum sem hv. þingmenn hafa varpað fram til mín hef ég reynt að svara. Flestum þeirra var svarað í fyrri ræðu minni, ef menn hlustuðu grannt. Mér finnst líka þakkarvert að hv. þingmenn vilji að ég komi hér oftar til þess að ræða Evrópusambandsmálin, það er sjálfsagt að við setjum upp reglulegar umræður um þau. En nú ætla ég að trúa hv. þingmönnum fyrir einu: Ég hef verið mjög undrandi á því hvernig þeir hafa hagað sér gagnvart Evrópuumræðunni á þessum vetri. Ég hef mætt eins og kórdrengur hvern einasta dag sem ég hef verið á landinu við upphaf þingfundar, setið við flestar umræður um stjórn þingsins og skráð mig í nánast allar óundirbúnar fyrirspurnir. Þetta er í fyrsta skipti sem utanríkisráðherrann fær til sín fyrirspurn um Evrópumálin. Það er ekki vegna þess að ég hafi ekki verið staddur hérna. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Ásmundur Daði Einarsson nefndi Króatíu. Króatía er kannski lykill að skilningi í þessu máli. Ef menn skoða framvinduskýrsluna um Króatíu og með hvaða hætti Evrópusambandið hefur hanterað hana, og ef við ættum að draga af því ályktanir, eru þær einkum að það sem líklegast væri að Evrópusambandið mundi setja fram sem einhvers konar markmið fyrir Íslendinga sé að finna í sjávarútvegi og landbúnaði. En það er nákvæmlega það sem þeir hafa gert í framvinduskýrslunni núna, í skýrslunni frá því í febrúar. Af hverju? Vegna þess að það eru málin þar sem við höfum ekki aðlagað okkur, eins og í gegnum EES-málaflokkana. Það er það sem við ætlum að semja um, fjárfestingarnar, stofnanastrúktúrinn, þeir vilja að við setjum upp ekki eina heldur sex stofnanir. Ég er því algerlega andvígur. Ég tel að fyrir lítið samfélag eins og okkar sé hægt að gera það með allt öðrum hætti. Um það verður samið.

Það er sjálfsagt að menn ræði í þaula í utanríkismálanefnd þær spurningar sem menn hafa.

Eitt vil ég segja við hv. þm. Margréti Tryggvadóttur. Ég hef reynt að hafa ferlið eins opið og hægt er. Við erum að setja upp gagnvirka heimasíðu þar sem hægt er að ræða við aðalsamningamennina og (Forseti hringir.) ráðherra eftir atvikum. Ég er opinn fyrir öllum hugmyndum um það.

Ég vil svo segja við hv. þm. Þór Saari: Hann veit að ég styð hugmyndir hans (Forseti hringir.) um þjóðaratkvæði almennt.