139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[15:50]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum áhugaverða þingsályktunartillögu um að setja reglur og samræma reglur um það hvernig eigi að standa að uppsögnum starfsmanna. Það var skondið að hlusta áðan bæði á framsögumann og hv. þingmann Mörð Árnason tala eins og Sjálfstæðisflokkurinn og allir þeir sem þar væru hefðu aldrei verið launafólk. Ég hef allan minn starfsaldur tilheyrt hópi launafólks. Ég hef líka staðið í þeim sporum að fá uppsögn sem var reyndar mjög sérstök. Hún var í formi skipulagsbreytinga. Ég var kölluð á fund þriggja æðstu manna fyrirtækisins áður en uppsagnarfrestur um nýja stöðu hafði runnið út og mér var tjáð að ég yrði ekki ráðin í hið nýja starf og mér gefið tækifæri á að draga umsókn mína til baka og stjórnendur fyrirtækisins mundu gera vel við mig, vegna þess að ég hefði unnið vel í fyrirtækinu sem um ræddi. Ég var þá skólastjóri í sveitarfélagi hér rétt utan Reykjavíkur. Þannig að ég þekki það á eigin skinni að vera sagt upp starfi. Fólk verður að glíma við það á þann hátt sem sá hinn sami telur skynsamlegast hverju sinni. Þetta var í sjálfu sér svolítið sérstök uppsögn þegar menn eru búnir að ákveða áður en umsóknarfrestur rennur út hver á að fá starfið og bjóða einum umsækjanda að draga umsókn sína til baka svo það komi fyrirtækinu ekki illa að þurfa ekki að ráða þann einstakling til starfsins. Þannig að ég þekki sjálf á eigin skinni hvað það er að vera launafólk eins og við heitum sem þiggjum laun hjá öðrum en sjálfum okkur. Ég hef líka staðið í þeim sporum að fá uppsagnarbréf.

Mér hefur aldrei liðið illa í hópi launafólks, en ég get alveg viðurkennt það að mér leið ekkert sérstaklega vel þegar ég fékk uppsagnarbréfið. Mér var heldur engin ástæða gefin fyrir því af hverju mér var sagt upp. Það voru jú skipulagsbreytingar, en þannig var það bara. Stundum verður maður að taka því. Ég tek það fram, allt í því ferli var löglegt þannig að ég er ekki að segja neitt annað. Það var allt löglegt í því ferli og ekkert við það að athuga. Þeir sem ákváðu að fara þessa leið með þeim hætti sem þeir fóru voru í sínum fulla rétti til þess. Svo það sé sagt til að taka af öll tvímæli.

Þess vegna hugsa ég þegar talað er um uppsögn: Hvernig á að framkvæma hana? Hvernig koma atvinnurekendur fram við fólk þegar þeir segja því upp störfum? Ég velti fyrir mér þessum svokölluðu viðtölum. Ég velti hins vegar fyrir mér því sem kallað er í frumvarpinu „ástæður uppsagnar“ og síðan „gildar ástæður uppsagnar“. Hver á að meta gildar ástæður uppsagnar? Launþeginn á rétt á því að fá upplýsingar um og rökstuðning fyrir væntanlegu uppsögninni. En hvað eru gildar ástæður uppsagnar og hverra er að meta það? Þetta er gildishlaðið orð, gildar ástæður. Hverra er að meta?

Hér er líka rætt um að ef sá sem fær uppsögnina er ósáttur við hana, þykir hana hafa borið að með þeim hætti sem ekki sé réttur eða hann hafi ekki fengið ástæðu fyrir uppsögninni, þá á hann í sjálfu sér og væntanlega alltaf rétt á einhverju málsmeðferðarkerfi.

Mig langar að spyrja flutningsmenn tillagnanna: Hvers konar málsmeðferðarkerfi? Hver mun væntanlega setja upp þetta málsmeðferðarkerfi? Og svo kemur líka að aðili sem fær uppsögn á rétt á því að leita til hlutlauss aðila. Hver er þessi hlutlausi aðili og hvernig verður þessu háttað? Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158. Ég hef ekki lesið hana, aðeins gluggað í hana, þannig að ég hef velt þessu fyrir mér.

Ég velti líka fyrir mér hvort menn séu með þessu að stíga það gullna skref að samræma fyrir alla launþega í landinu, jafnt þá sem vinna á hinum almenna markaði og þá sem eru á hinum opinbera markaði. Erum við að stíga skrefið að fella úr gildi sérstök lög sem gilda um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna? Erum við eingöngu að velta fyrir okkur starfsfólki á hinum almenna markaði? Eða ætlum við með þessari tillögu að hafa kjark til að hafa ein lög um réttindi og skyldur alls launafólks í landinu en ekki tvöfalt kerfi í því á sama hátt og við erum með tvöfalt kerfi t.d. í lífeyrissjóðakerfinu, frú forseti?

Mér finnst þetta vera áhugavert og áskil mér allan rétt til að kynna mér betur og fara yfir verkefnið eða þingsályktunartillöguna áður en ég hér og nú lýsi yfir stuðningi eða andstöðu við. Mér finnst þetta skipta máli hverra er að meta hvað eru gildar ástæður uppsagnar. Hvers konar málsmeðferðarkerfi verður komið á laggirnar? Hver er hinn hlutlausi aðili? Erum við að leggja til eitt kerfi fyrir allt launafólk í landinu? Eða ætlum við að hafa í því tvöfalt kerfi, uppsagnarferli, annars vegar fyrir launamanninn á hinum almenna markaði og hins vegar fyrir launamanninn hjá hinu opinbera?

Ef við erum í alvöru að tala um að setja lög með þessum hætti vænti ég þess að því fylgi sá kjarkur að það gildi ein lög fyrir allt launafólk í landinu.

Ég bið menn líka um að velta fyrir sér, þó að ég hafi eins og ég sagði í upphafi sjálf verið í hópi launafólks alla tíð og staðið frammi fyrir uppsögn, að ég hef áhyggjur af því vegna þess að ég þekki líka til laga þar sem eigendur versus leigjendur hafa þurft að takast á. Leigjandinn virðist næstum því hafa öðlast meiri rétt til búsetu í íbúð heldur en eigandi íbúðarinnar. Ef við erum að fara með þessu inn í eitthvert slíkt kerfi, erum við á villigötum. Þá verðum við líka að gæta okkar hvað það varðar. Vegna þess að réttur eins á aldrei að verða þannig að hann skerði rétt hins.

Ég vona að hv. flutningsmenn — ég verð að viðurkenna að mér leiðist alveg óskaplega, frú forseti, þetta menn og konur eða karlar og konur. Það er ágæt hefð í íslenskri tungu að tala um flutningsmenn og sum heiti eru karlkyns nafnorð þó kona gegni því. Þessi útþynning að einhenda sér í að gera allt kynlægt er óþolandi. Þess vegna spyr ég flutningsmenn, en hvorki -karla né -konur sem eru aðilar að þessari þingsályktunartillögu, og bið þá um að svara spurningunum sem ég hef varpað fram.