139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

uppsögn af hálfu atvinnurekanda.

47. mál
[16:00]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim sem tóku þátt í umræðunum um þessa þingsályktunartillögu fyrir ágætar umræður og líka stuðning við tillöguna þó kannski væri bara að hluta til.

Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði það að umtalsefni að ég hefði í ræðu minni fyrst og fremst minnst á opinber hlutafélög þegar ég var að tala um hvernig illa hefði verið staðið að uppsögnum. Það er alveg rétt. Ástæðan er kannski sú að það eru mjög fáir sem starfa fyrir einkafyrirtæki, alla vega fáir sem ég þekki til, sem eru tilbúnir að fara í fjölmiðla og kvarta yfir meðferð við uppsögn vegna þess að margir þeirra eru þeirrar skoðunar að það muni draga úr möguleikum þeirra á vinnumarkaði og þegja frekar en gera mál úr hlutunum til að fá örugglega gott atvinnutækifæri aftur. Það á kannski ekki jafnmikið við um þá sem hafa starfað í opinbera geiranum og ætla sér að halda áfram að starfa þar jafnvel eftir uppsögn.

Það er alveg rétt að það þarf að finna einhvers konar jafnvægi milli geðþóttaákvarðana atvinnurekenda og síðan of mikilla réttinda starfsmanna. Ég tel að við höfum ekki verið með mjög gott jafnvægi þarna, sérstaklega ekki þegar kemur að einkafyrirtækjum. Ég þekki sjálf, sem fyrrverandi starfsmaður einkafyrirtækja, fjölmörg dæmi um að starfsfólki hafi verið sagt upp jafnvel á ógeðfelldan hátt og verið neitað um ástæðu uppsagnar. Það var reyndar fyrir 2008, áður en þessi bókun kom við kjarasamninga ASÍ og SA. Mér er mjög minnisstætt þegar ég starfaði við háskóla sem telur sig vera einkafyrirtæki, að þar starfaði amerískur starfsmaður. Hann lenti í því að fá uppsögn eftir jólahlaðborð og vildi að sjálfsögðu fá að vita hver ástæðan væri. Honum var neitað um ástæðuna. Hann kom á fund okkar starfsmanna og sagðist ætla að fara í mál eins og allir gera í Bandaríkjunum við yfirmann við þennan háskóla. Því miður þurftum við að segja honum að hann mundi ekki finna neinn lögfræðing sem vildi taka málið að sér vegna þess að hann hefði engan rétt til að krefjast þess að fá ástæðu uppsagnarinnar. Ég man enn eftir svipbrigðunum á manninum þegar honum var sagt að í norrænu velferðarkerfi eins og því íslenska væru réttindi starfsfólks minni en í Bandaríkjunum.

Hvað varðar þær spurningar sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir varpaði fram vil ég ítreka að þetta er þingsályktunartillaga þar sem fram koma markmið um það hvernig standa eigi að uppsögnum. Það á í fyrsta lagi að skylda atvinnurekendur til að gefa upp ástæður. Þrenns konar ástæður geta legið til grundvallar uppsögn, í fyrsta lagi hæfni, í öðru lagi hegðun starfsmanns og í þriðja lagi rekstrarlegar ástæður.

Þriðji þátturinn er þá þessi málsmeðferð og hv. þingmaður spyr mikið út í þann þátt. Það er auðvitað ríkisstjórnarinnar að útfæra þessa málsmeðferð í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Það er ekki okkar að útfæra í þingsályktunartillögu nákvæmlega hvernig standa eigi að hlutunum enda er það ekki markmiðið með þingsályktunartillögu.

Hvað varðar að samræma þau réttindi sem eru á íslenskum vinnumarkaði, bæði hjá þeim sem eru í opinbera geiranum og hinum sem eru í einkageiranum, þá mun samþykkt ILO-samþykktarinnar ekki tryggja það vegna þess að þetta eru lágmarksréttindi. Það ríkir samningsfrelsi þannig að ef aðilar vinnumarkaðarins, einhver stéttarfélög og atvinnurekendur þeirra hópa sem tilheyra stéttarfélögunum, komast að þeirri niðurstöðu að þeir vilji hafa betri réttindi en þessi samþykkt felur í sér þá er þeim það frjálst. Ég geri ráð fyrir því að það muni að einhverju leyti gerast eins og tilfellið er t.d. í Svíþjóð þar sem ég hef starfað og þekki vel til.

Virðulegi forseti. Ég vonast til að hv. félags- og tryggingamálanefnd taki vel í þingsályktunartillöguna og hraði vinnslu hennar. Það virðist vera mjög brýnt að uppsögnum og umkvörtunum vegna þeirra verði komið í eitthvert formlegt ferli sem bæði launafólk og atvinnurekendur geta sætt sig við.