139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:24]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir frumkvæðið og framsýnina að leggja þetta frumvarp fram. Þegar við fjöllum um nýsköpunarfyrirtæki á Alþingi, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, er það yfirleitt með jákvæðum hætti. Eins og framsögumaður, hv. þm. Eygló Harðardóttir, rakti í máli sínu áðan er frumvarpið ekki mjög flókið, ekki nema tvær efnisgreinar og mjög fáort. Það fjallar um að það sem breytist við að nýsköpunarfyrirtæki fá að njóta skattfrádráttar er að það skiptir ekki máli hvað þau eru stór.

Hv. þingmaður sagði í lok ræðu sinnar að það væri jákvætt fyrir okkur hv. alþingismenn að sameinast um þetta mál og það væri ákveðin nýsköpun í sjálfu sér.

Það sem málið fjallar um er að sú grein um að fyrirtæki þurfi að uppfylla þau skilyrði að vera með 5 millj. kr. annað hvort í þróunar- eða rannsóknarvinnu, verði felld burt, þ.e. það er alveg sama hvað fyrirtækið sem nýtur skattfrádráttar er stórt, hvort talan er lægri en 5 millj. kr. eða ekki.

Við þekkjum það á hinu háa Alþingi og það eru mörg dæmi um það að þeir einstaklingar sem stofna nýsköpunarfyrirtæki koma oft að lokuðum dyrum hjá fjárlaganefnd, sérstaklega hvað varðar umsóknir í þróunarsjóði og styrki frá Alþingi. Ég veit að þangað koma margir einstaklingar sem sækja um mjög lága styrki, kannski litlar upphæðir til að koma af stað fyrirtæki, sem yfirleitt er hugsjón hjá fólki. Hugmyndin er kannski að byrja eingöngu með hálft, eitt eða tvö störf og fólk biður oft um mjög litla peninga. Ef reglunum yrði breytt tel ég að það mundi hjálpa mörgum einstaklingum að stofna einmitt svona nýsköpunarfyrirtæki. Það er gríðarlega mikilvægt að nýsköpunarfyrirtæki verði til, sérstaklega í ástandi eins og núna þó að þau séu alltaf verðmæt, svo það komi nú skýrt fram.

Það má heldur ekki gleyma því að þegar við styrkjum nýsköpunarfyrirtæki eða styrkjum þau aukum við atvinnumöguleikana, atvinnutækifærin og förum inn á nýjar brautir. Starf þessara fyrirtækja er gríðarlega mikilvægt fyrir þjóðarbúið.

Á fundi í fjárlaganefnd í gær kom maður frá ákveðnu fyrirtæki sem er að vinna að hugmyndum fyrir nýsköpunarfyrirtæki. Afraksturinn af því starfi sem ekki hafði kostað mikla peninga, alla vega hafði hann ekki fengið mikla styrki til verksins, var sá að búið var að stofna þrjú ný fyrirtæki og skapa tólf störf. Það sjá því allir hversu gríðarlega mikilvægt þetta er.

Það er líka kostur að það dreifist um allt. Það dreifist um allt samfélagið, um allt landið. Þarna verða til alls konar fyrirtæki sem byrja oft og tíðum smátt en verða síðan stærri þannig að það segir sig alveg sjálft hversu jákvætt þetta er.

Ég ætla svo sem ekki að halda langa ræðu vegna þess að hv. þm. Eygló Harðardóttir fór mjög vel og efnislega yfir málið og er svo sem ekki til neins að ræða það frekar nema til að eyða tíma. En ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði, ég vænti þess að Alþingi afgreiði málið með jákvæðum hætti og að umfjöllun í efnahags- og skattanefnd verði til þess að menn sjái að sér og felli út greinina um að nýsköpunarfyrirtæki þurfi að setja 5 millj. kr. í rannsóknar- og þróunarvinnu. Ég vona að öllum verði gert kleift að stofna nýsköpunarfyrirtæki.

Við skulum rifja það upp að við pexum oft í þessum sal um að það sé einungis stefna sumra og ekki annarra að stofna stór og mikil fyrirtæki sem skapa mörg störf og kosta mikla peninga, en við hljótum að geta sammælst um þetta því að hér er ekki gerð krafa um fjölda starfa, það skiptir ekki máli hvort störfin eru eitt eða tíu.