139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:37]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka undir það sem hv. þingmaður sagði um ágæti þess að fara í svona aðgerð að því gefnu að búið sé að skattleggja atvinnulífið undir drep. Þegar búið er að stöðva nánast allt frumkvæði í landinu og keyra þjóðina í stöðnun þá get ég tekið undir ráðstafanir af þessu tagi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, og þess vegna fer ég í andsvar, af því að mér finnst menn vera dálítið bláeygir: Um 55 þúsund heimili í landinu hafa tapað hlutabréfum og stofnfjárbréfum í sparisjóðum sem þau keyptu í góðri trú, að fengnum ráðleggingum, mörg hver. Telur hv. þingmaður líklegt að fólk kaupi hlutabréf yfirleitt eftir svona áfall? Það hefur engu verið breytt í lögum hvorki um hlutafélög eða annars staðar sem breytir því og byggir upp traust á áhættufjárfestingu. Ef menn um leið breytast í fyrirbæri sem heitir fjármagnseigandi, sem er mikið skammaryrði, telur hv. þingmaður að það sé líklegt að menn séu til í það fyrir utan það að núverandi ríkisstjórn hefur með öllum ráðum reynt að klekkja á því að menn fjárfesti í sparnaði eða leggi fyrir, hvað þá að þeir fjárfesti í hlutabréfum af því að búið er að hækka skatta á þetta allt saman.