139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:39]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta andsvar. Aðeins varðandi þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur verið að birta í framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 þá höfum við ekki séð nema lítinn hluta af þessum skattahækkunum enn. Á fundi í efnahags- og skattanefnd með fjármálaráðherra í morgun kom fram að aukin gjöld á atvinnulíf og heimili verða nærri 20 milljarðar á næsta ári. Þar með talið mun þessi norræna velferðarstjórn ætla sér að frysta skattleysismörkin sem eru í raun og veru jöfnunartækið í skattkerfinu og þeir sem munu fara verst út úr þeirri frystingu eru láglaunafólk og fólk sem er á örorkubótum og ellilífeyri þannig að það er erfitt að finna þá norrænu velferðarstefnu sem í frumvarpinu felst.

Hvað hitt varðar er alveg rétt að það mun taka tíma fyrir okkur að byggja upp traust í íslensku samfélagi, það varð hér eitt allsherjarhrun. Ég tel að við þurfum að mörgu leyti að endurhugsa íslenskt samfélag og hvernig við ætlum að byggja það upp til framtíðar.

Við horfðum upp á það á vettvangi þingsins og í íslensku samfélagi m.a. hvernig krosseignatengsl voru í íslensku atvinnulífi. Það var takmarkað gert í þeim efnum. Hver var afleiðingin? Jú, þegar ein stoðin hrundi hrundu hinar allar með þannig að það er margt sem við þurfum að spyrja okkur að og við þurfum að svara ákveðnum spurningum. Ég er sammála hv. þingmanni um að það gengur ekki að sitja þegjandi hjá og fara ekki í einhverjar aðgerðir og einhverja stefnumótun um það hvernig við ætlum að byggja þetta upp. Ég er reiðubúinn að fara í slíka vegferð með hv. þingmanni. En ég las það samt úr orðum hv. þingmanns að hann muni vera einarður stuðningsmaður þess frumvarps sem við ræðum hér.