139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[16:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir sem í fyrstu atrennu töpuðu á hruninu voru hlutafjáreigendur, litlir fjárfestar og hlutafjáreigendur voru hlunnfarnir á þann hátt að fyrirtæki voru tæmd af stærstu hluthöfunum. Það er nokkuð sem ég sýni fram á hvernig gerðist í nefndu frumvarpi.

Varðandi hvort hægt sé að laga stöðu fyrirtækja eða atvinnulífs með skattlagningu þá hef ég rætt það mörgum sinnum, ég ræddi það síðast í gær, hv. þingmaður hefur ekki fylgst með þeirri umræðu. Menn geta lagað stöðu ríkissjóðs og þjóðfélagsins á þrennan hátt: Það er hægt að skattleggja, það er hægt að skera niður kostnað og það er hægt að stækka kökuna. Það er hægt að auka atvinnu, hindra að 10 manns á dag flytjist til útlanda, því að þar hverfa skattgreiðendur og eftir sitja bótaþegar sem er stórhættulegt, eða hindra að menn breytist í atvinnuleysingja. Með of harkalegum niðurskurði þegar enga atvinnu er neins staðar að hafa breytast opinberir starfsmenn í atvinnuleysingja og þiggja bætur. Það viljum við hindra með því að leggja aðrar áherslur, stækka kökuna, auka atvinnu, auka atvinnu og auka atvinnu.