139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[17:00]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er sammála þessu. Þessar þrjár leiðir er allar verið að fara, ríkisstjórnin er að því þrátt fyrir mikla erfiðleika á leið sinni sem m.a. stafa af þrjósku og þrályndi stjórnarandstæðinga sumra í þinginu en alls ekki allra. Við skulum bara sjá til hvernig það gengur og taka saman höndum um það mál.

Ég held líka að það sé rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að hlutafjáreigendur hafi verið þeir sem fóru einmitt fyrstir einna verst út úr hruninu vegna þess að þeir töpuðu margir með öllu hlut sínum og þeir sem áttu mikið af eignum sínum í hlutafé fóru mjög illa út úr því. Það er partur af þeim vanda sem ég var að tala um áðan að menn voru hvattir, ég segi ekki blekktir, til þess að setja sjálfir fé í tiltekin fyrirtæki eins og þeir væru feitir karlar með mikla svarta pípuhatta að spila matadorspil að gamni sínu í einhverjum sýndarveruleika.

Það er auðvitað athyglisvert og tilfinnanlegt að einmitt þeir sem settu fé sitt í hlutabréf skyldu hafa tapað því nánast með öllu en þeir sem fóru hina leiðina eða eina af öðrum leiðum og settu það í áhættusjóði í bönkunum skyldi hafa verið borgað það aftur. Ég verð að segja, það er best að nota tækifærið til þess fyrst við erum að ræða þessi mál, að ég hef aldrei skilið það og aldrei fengið neina skýringu á hvernig stóð á því. Ef einhver kann skýringu á þeim sjóðum sem allir vita hverjir voru, af hverju menn fengu fé sitt aftur úr þeim, sem er ein af þeim röksemdum sem notaðar eru gegn hinum svokallaða íslenska málstað í Icesave-málinu, þá hvet ég menn til að skýra það við tækifæri.