139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.

73. mál
[17:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil ógjarnan verða eftirbátur hv. þm. Marðar Árnasonar, sem stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar, að taka til máls í umræðum um þetta frumvarp þar sem sérstaklega var kallað eftir því að heyra sjónarmið þingmanna úr þingflokkum stjórnarinnar.

Nú er auðvitað rétt að geta þess að þetta mál er flutt af hv. þingmönnum úr Framsóknarflokki og einum þingmanni Sjálfstæðisflokks og hefur þar af leiðandi ekki komið til neinnar efnislegrar umræðu á vettvangi þingflokka stjórnarflokkanna. Ég man ekki til þess að leitað hafi verið eftir meðflutningi á málinu í röðum stjórnarinnar, alla vega ekki þeim þingflokki sem ég á sæti í, þannig að málið hefur af þeim eðlilegu orsökum ekki komið til neinnar efnislegrar umræðu á þeim vettvangi. Þar af leiðandi hefur ekki verið mótuð nein sérstök afstaða til málsins þar sem var líka verið að inna menn eftir afstöðu til þessa frumvarps.

Þetta frumvarp gengur eingöngu út á, eins og ég hef lesið það og skilið, það fór reyndar fram heilmikil umræða um verðbréfamarkaðina og hlutabréfamarkaðina almennt, að fella fyrst og fremst úr lögum sem hér voru samþykkt á árinu 2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, ákvæði sem skylda fyrirtæki, sem vilja fá skattafslátt vegna þess að þau eru nýsköpunarfyrirtæki, að sýna fram á að þau leggi tiltekna fjármuni í slík verkefni. Eins og gert er ágætlega grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu var upphaflega gert ráð fyrir að þau viðmiðunarmörk væru 20 millj. kr. en í meðförum þingsins var sú upphæð lækkuð niður í 5 millj. kr. sem er auðvitað umtalsverð lækkun en það var gert með þeim rökum sem hér eru líka reifuð, að það hafi þótt of íþyngjandi að vera með svo há viðmiðunarmörk eða háa viðmiðunarfjárhæð sem 20 millj. kr. eru eins og upphaflegt frumvarp gerði ráð fyrir. Ég skil það þannig að þetta frumvarp gangi fyrst og fremst út á að fella burt þessa viðmiðunarfjárhæð.

Ég hygg að við séum öll sammála um að það sé alltaf mikilvægt en kannski ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna að efla starfsemi nýsköpunarfyrirtækja, styðja við starfsemi þeirra. Við tölum oft um það og sérstaklega á tyllidögum að mesta auðlind þjóðarinnar sé mannauðurinn sjálfur. Það er ábyggilegt að við Íslendingar erum vel menntuð þjóð almennt séð og eigum mörg sóknarfæri til uppbyggingar atvinnulífinu í meðalstórum og kannski ekki síst í litlum fyrirtækjum. Um það er áreiðanlega enginn ágreiningur meðal þingmanna að við eigum að gera það sem við getum til að styðja við starfsemi af þessum toga.

Ég hef af vissum ástæðum aðeins kynnt mér það fyrirkomulag sem hefur verið við lýði í Noregi og er einnig reifað í greinargerð með þessu frumvarpi og kallað „SkatteFUNN-kerfi“ og vísað til þess að þar sé ekki að finna neina lágmarksupphæð sem fyrirtæki þurfi að leggja í nýsköpunarþróun. Auðvitað er álitamál hvort eigi að gera kröfur af því tagi vegna skattafsláttarins. Hins vegar er afslátturinn líka hugsaður til að styðja sérstaklega við nýsköpunarfyrirtæki og má kannski segja um leið að reikna megi með að slík fyrirtæki leggi almennt fjármuni í rannsóknarþróun vegna þess að þau byggja á því að vinna samhliða að rannsóknum og þróun á því sviði sem þau starfa. Kannski er nánast sjálfgefið að fyrirtæki af þessum toga séu með einhver framlög til rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Ég ætla ekki að leggja á það mat við þessa umræðu hvort eðlilegt sé að fella þetta ákvæði brott. Mér finnst hins vegar sjálfsagt mál að þetta sé tekið til umfjöllunar á vettvangi viðkomandi þingnefndar og mér finnst sjálfsagt að menn reyni að kalla fyrir þá sem starfa á þessum vettvangi, leita eftir reynslusögum, fá viðhorf þeirra sem starfa í þessum greinum og þessum fyrirtækjum til þess hvernig fyrirkomulagið hafi gefist að svo miklu leyti sem á það hefur reynt nú þegar. Þetta er nýmæli og það kann vel að vera að ekki sé komin nægilega mikil reynsla til að draga af því ályktanir. Mér finnst sjálfsagt að farið sé yfir það með þeim á vettvangi þingnefndarinnar, þeir fengnir til fundar og farið rækilega í saumana á því hvort þessi breyting mundi hafa tilætluð áhrif sem ég geng út frá að séu að efla enn frekar starfsemi nýsköpunarfyrirtækja og renna styrkari stoðum undir starfsemi þeirra.

Það er ekki annað hægt en fagna því að þær hugmyndir sem frumvarpið geymir séu komnar fram á þingskjali — einhver talaði í ræðu í gær um bækling þegar talað var um þingskjal en ég kýs að tala um þingskjal. Mér finnst sjálfsagt og mikilvægt að við förum í saumana á því hvort sú breyting sem frumvarpið gerir ráð fyrir nái tilætluðum árangri eða hvort við séum e.t.v. að ná þeim árangri sem við stefndum að með þeirri lagaumgjörð sem sett var á árinu 2009, hvort hún sé nægileg. Ég ítreka að óvíst er að komin sé nægilega mikil reynsla á það fyrirkomulag til að draga af því mjög umfangsmiklar ályktanir en það er sjálfsagt að skoða það á vettvangi þingnefndarinnar. Ég ætla þar af leiðandi ekki að lýsa yfir neinni sérstakri skoðun á því á þessu stigi hvort ég mæli með því að frumvarpið verði samþykkt eða ekki. Mér finnst að taka verði afstöðu til þess þegar hefðbundin nefndarvinna hefur farið fram. Ég geng út frá því að efnahags- og skattanefnd fái þetta mál til umfjöllunar. Á þeim vettvangi verður farið í saumana á málinu.

Að öðru leyti vil ég ítreka að ég tel brýnt fyrir okkur að efla eins og við frekast getum stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, eins og við höfum reyndar gert með lögunum nr. 152/2009 sem tóku gildi 1. janúar sl. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég hef vakið máls á því að óvíst er að komin sé nægilega mikil reynsla á hvernig þau nái þessum markmiðum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frumvarp núna. Ég fagna því að hugmyndin er komin fram og fái málefnalega umfjöllun á vettvangi nefndarinnar og svo tökumst við á um það í framhaldinu hvort frumvarpið verði samþykkt eða hvort viðmiðunarmörkunum verði breytt.