139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur o.fl.

87. mál
[17:16]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á fernum lögum. Í fyrsta lagi breytingu á lögum um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur, nr. 139/2001, í öðru lagi um breytingu á lögum um Landsvirkjun, nr. 42/1983, í þriðja lagi um breytingu á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991, og í fjórða lagi um breytingu á lögum um sameignarfélög, nr. 50/2007.

Frumvarpið flyt ég ásamt hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur, Eygló Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur, Halldóru Lóu Þorvaldsdóttur, Jónínu Rós Guðmundsdóttur, Jórunni Einarsdóttur, Ólafi Þór Gunnarssyni, Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur og Siv Friðleifsdóttur.

Ástæðan fyrir því að hér er verið að slá saman í eitt frumvarp breytingu á fernum lögum er fyrst og fremst sú að verið er að gera tillögur um sambærilegar breytingar í öllum þessum tilvikum. Efni breytinganna varða annars vegar það að við lögin bætist ákvæði um hlutföll kynjanna í stjórnum Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar og stjórnum samvinnufélaga og sameignarfélaga. Hins vegar er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði þess efnis að formaður stjórnar verði ekki það sem kallað er starfandi stjórnarformaður.

Það er rétt að geta þess að þetta er til samræmis við breytingar sem gerðar voru á lögum um einkahlutafélög og lögum um hlutafélög með lögum nr. 13/2010 frá 8. mars sl. Alþingi gerði breytingar á lögunum um einkahlutafélög og lögunum um hlutafélög fyrr á þessu ári þar sem tekið var á þessum tveimur efnisþáttum, annars vegar kynjahlutfalli í stjórnum fyrirtækjanna og hins vegar því að stjórnarformaður í hlutafélögum væri ekki það sem kallað er starfandi stjórnarformaður, þ.e. stjórnarformaður í fullu starfi.

Í 1. mgr. 3. gr. laga um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur er mælt fyrir um að stjórn þess sé skipuð 6 mönnum og er nánar tilgreint hverjir kjósi fulltrúa í stjórnina. Með þessu frumvarpi er lagt til að bætt verði við málsgreinina að það verði tryggt að kynjahlutföll fulltrúa í stjórnum verði jöfn og þar er sem sagt lagt til að það bætist við ein setning svohljóðandi: „Tryggt skal að í stjórn fyrirtækisins séu kynjahlutföllin jöfn.“ Það á að vera hægt þar sem heildartala stjórnarmanna er slétt tala, þ.e. sex.

Með sama hætti er lögð til breyting á lögum um Landsvirkjun sem eins og Orkuveita Reykjavíkur er sameignarfyrirtæki. Það er jafnframt lögð til viðbót við 1. mgr. 13. gr. laga um sameignarfélög og 1. mgr. 27. gr. laga um samvinnufélög þess efnis að þegar starfsmenn félags eru fleiri en 50 að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur einstaklingum en þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír skuli tryggt að hlutföll hvors kyns séu ekki lægri en 50%. — Ég rek augun nú þegar, frú forseti, í villu í greinargerð með þessu frumvarpi því þar á að standa að sjálfsögðu 40% eins og stendur í lagagreininni sjálfri. Er þar gert ráð fyrir að hlutfall hvors kyns skuli ekki vera lægra en 40%.

Ákvæðið á líkt og fram kemur aðeins við um samvinnu- og samheitafélög þar sem starfsmenn eru að jafnaði fleiri en 50 á ársgrundvelli. Þetta er sambærilegt ákvæði og sett var inn í lögin um hlutafélög og einkahlutafélög. Þar var sett inn ákvæði um kynjakvóta í stjórnum sem miðaðist við fyrirtæki af þeirri stærð sem hér um ræðir, þ.e. að starfsmannafjöldinn sé 50 eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli.

Síðan er hin efnisbreytingin sem fjallar um starfandi stjórnarformenn. Þar er lagt til að við áðurnefnda 1. mgr. 3. gr. laganna um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur verði bætt við ákvæði þess efnis að stjórnarformaður taki ekki að sér verkefni fyrir félagið önnur en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns. Þó er gerð undantekning á því er varðar tilvik þar sem stjórnir og félög stjórnarformanna vinna einstök verkefni fyrir sig þ.e. fyrir stjórnina. Þá er lagt til að sams konar ákvæði bætist við 2. mgr. 5. gr. laga um Landsvirkjun, 3. mgr. 27. gr. laga um samvinnufélög og 1. mgr. 15. gr. laga um sameignarfélög en þau taka öll á þessu sama máli. Orðalag greinarinnar er þá þannig eða eins og tillagan í frumvarpinu gerir ráð fyrir, með leyfi forseta:

„Formaður stjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórn felur honum að vinna fyrir sig.“

Eins og áður kom fram voru sams konar breytingar og hér eru lagðar til gerðar á lögum um einkahlutafélög og lögum um hlutafélög með lögunum nr. 13/2010 frá 8. mars 2010. Ákvæði frumvarpsins er varð að þeim lögum og fjallaði um starfandi stjórnarformann byggðist efnislega á niðurstöðu nefndar um stefnumótun íslensks viðskiptaumhverfis sem þáverandi viðskiptaráðherra skipaði. Meiri hluti hennar lagði til að stjórnarformanni hlutafélags yrði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Þó var lagt til að stjórn félagsins gæti falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina.

Það þýðir ekki að gert sé ráð fyrir því að stjórnarformaðurinn verði eins konar yfirframkvæmdastjóri viðkomandi fyrirtækis eins og var orðin lenska, vil ég leyfa mér að segja. Það voru allmörg dæmi um það í íslensku viðskiptaumhverfi fyrir efnahagshrunið. Þetta var fyrirkomulag sem einnig hefur verið gagnrýnt af þeim sem hafa rýnt í orsakir og aðdraganda hrunsins þannig að ég tel að með breytingunum sem gerðar voru á hlutafélagalögunum hafi menn mætt þessari gagnrýni vegna þess að talið er mikilvægt að skýr skil séu á milli þeirra sem fara með daglega stjórn fyrirtækja af þessum toga annars vegar, daglegan rekstur, og hins vegar þeirra sem bera ábyrgð á stjórninni, stefnumótun fyrirtækisins, ábyrgð gagnvart eigendum og viðskiptavinum o.s.frv. Það var talin hætta, og er augljós hætta, að ef stjórnarformaðurinn er starfandi í þessum skilningi, að hann sé í fullu starfi með aðstöðu sína í fyrirtækinu, þá sé hann orðinn beinn þátttakandi og beinn aðili að hinum daglegu störfum, daglegum rekstri fyrirtækisins, og geti þar af leiðandi ekki með sannfærandi hætti tekið að sér að vera í fyrirsvari fyrir stjórn sem á að hafa eftirlit með þessum sama daglega rekstri. Hann geti þar af leiðandi ekki rækt skyldur sínar sem formaður stjórnar með eðlilegum og sanngjörnum hætti. Þessar breytingar hafa þegar verið gerðar á hlutafélagalöggjöfinni bæði um almennu hlutafélögin og einkahlutafélögin.

Frumvarpið er lagt fram vegna þess að það þykir rétt að sömu reglur eigi við um sameignarfélög og samvinnufélög sem og Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun sem starfa samkvæmt sérlögum. Það er í raun og veru ekki eðlilegt að það sé öðruvísi umhverfi eða umgjörð að þessu leyti eftir því hvort félögin eða fyrirtækin eru rekin sem hlutafélög eða sameignarfélög eða sameignarfyrirtæki. Það á ekki að gera aðrar kröfur til fyrirtækja sem velja sér eitthvert annað rekstrarform hvað þetta snertir, hvað þessi atriði snertir þannig að ég tel mikilvægt að á þessu sé tekið og hef því leyft mér að leggja fram þetta frumvarp.

Það fór fram heilmikil umræða á vettvangi viðskiptanefndar Alþingis þegar hún hafði frumvarpið um breytingu á hlutafélagalögunum og einkahlutafélagalögunum til umfjöllunar á síðasta þingi. Auðvitað komu þar upp sjónarmið að ekki væri rétt að setja ákvæði um kynjakvóta í lög. Það væri í raun og veru verið að taka fram fyrir hendurnar á eigendum og hluthöfum í fyrirtækjum með því að ganga þannig fram. Nú eru til fordæmi um þetta. Það var t.d. gert í Noregi. Þar voru sett ákvæði um kynjakvóta í hlutafélögum og eftir því sem mér skilst hefur það gefið góða raun. Það hefur aukið hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja og þrátt fyrir að fyrirtækjaumhverfi hafi frekar verið andsnúið breytingum af þessum toga þegar þær voru kynntar þá hygg ég að það hafi ekki verið nein sérstök vandkvæði á að uppfylla lagaskyldurnar þar í landi. Ég á ekki von á því að það verði hér.

Ég vil líka geta þess að það fór fram vinna á vettvangi Félags kvenna í atvinnurekstri, Samtaka atvinnulífsins og stjórnmálaflokkanna þar sem fjallað var um leiðir til að auka hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja. Ég held að það sé engum blöðum um það að fletta að það er ekkert síður mikilvægt þegar við tölum um stjórnmálalífið og stjórnmálaumhverfið að það sé jafnræði milli kynjanna í þátttöku í stjórnmálum, þá eigi það sama við um atvinnulífið og viðskiptaumhverfið. Reynslan sýndi það að konur áttu og hafa átt erfitt uppdráttar í atvinnulífinu og erfitt er að laga hlutfall þeirra í stjórnum fyrirtækja. Þess vegna varð niðurstaða Alþingis að fara þá leið að setja ákvæði um þetta í lög.

Reyndar er það svo að ákvæðin um kynjakvóta í stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga öðlast gildi 1. september 2013 þannig að það er allnokkur aðlögunartími fyrir fyrirtækin svo að þau eiga að hafa alla möguleika á því að ná þessu markmiði jafnt og þétt til ársins 2013. Af hverju var sú tímasetning valin? Jú, hún var valin vegna þess að Samtök kvenna í atvinnurekstri, Samtök atvinnulífsins og stjórnmálaflokkarnir höfðu sett sér ákveðin markmið í þessu efni. Það er rétt að halda því til haga í umræðunni að atvinnulífið sjálft vildi ekki fá ákvæði um þetta inn í lög heldur vildi ná þessu á eigin forsendum og settu sér markmið að ná þessu árið 2013. Þess vegna var það ákveðin málamiðlun í vinnu viðskiptanefndar á síðasta þingi að setja ákvæði um þetta í lög en gefa aðlögunartímann sem atvinnulífið óskaði eftir, þ.e. til 1. september 2013. Það þýðir að á aðalfundum fyrirtækja á árinu 2013 í síðasta lagi, þeir eru flestir fyrri hluta ársins en engu að síður á árinu 2013, þurfa menn að ná þessu marki í fyrirtækjunum sem ákvæðið nær til. Eins og ég sagði í upphafi nær það fyrst og fremst til stærri fyrirtækja þ.e. þar sem starfsmannafjöldinn er 50 eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli. Með sama hætti legg ég og meðflutningsmenn mínir til með frumvarpinu að kynjakvótaákvæði í stjórnum sameignarfélaga og samvinnufélaga öðlist gildi 1. september 2013.

Ég hef ekki gert ráð fyrir því að það verði svona langur aðlögunartími að því er varðar stjórnir Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar. Ég tel að fyrirtækjum sem eru að fullu í eigu opinberra aðila eins og þau tvö sé engin vorkunn að koma fyrr á jafnræði milli kynja í stjórnum sínum. Þess vegna gerir frumvarpið ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. janúar 2011. En það þarf auðvitað að koma í ljós hvort það næst að afgreiða frumvarpið fyrir þann tíma en nefndin skoðar það þá í meðförum sínum hvort breyta þarf tímasetningunni.

Mig langar síðan að koma að umræðunni um starfandi stjórnarformenn. Eftir bankahrunið fór fram heilmikil umræða um það hvort þetta fyrirkomulag, sem komið var á í mörgum fyrirtækjum að stjórnarformenn væru nánast starfandi eins og einhverjir yfirfrakkar eða yfirforstjórar, væri heppilegt. Það var mikil umræða um ábyrgð stjórna, ábyrgð endurskoðenda, og ábyrgð stjórnarmanna á rekstri fyrirtækjanna. Ég held að það megi færa fyrir því sterk rök að það sé óheppilegt að stjórnarmenn séu í raun og veru eins og þátttakendur í því teymi sem fer með daglegan rekstur fyrirtækjanna. Því að verkefni þeirra er að gæta hagsmuna hluthafa. Þeirra verkefni er að hafa eftirlit með rekstrinum, þeim rekstri sem ráðnir starfsmenn hafa með höndum frá degi til dags. Það er alveg ljóst að þegar stjórnarformaðurinn sem er kjörinn af hluthöfunum er orðinn hluti af daglegu teymi þá er ekki nægilega mikil fjarlægð á milli daglegs reksturs fyrirtækisins og svo eftirlitshlutverksins sem stjórnin á að hafa með höndum. Þess vegna var þessi breyting gerð á lögunum um hlutafélög og einkahlutafélög. Það skaut þess vegna dálítið skökku við, verð ég að segja, eftir að kosið var í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur snemmsumars 2010, að þar á bæ skyldi vera tekin ákvörðun um að hinn kjörni stjórnarformaður væri það sem kallað er starfandi stjórnarformaður, fyrirkomulag sem hafði sætt gagnrýni og var ákveðið að útrýma úr íslenskum lögum eða gera óheimilt í íslenskum lögum, skyldi núna árið 2010 vera tekin ákvörðun um að innleiða þetta fyrirkomulag í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Það vakti mig til umhugsunar um það hvort einhverjar ástæður væru fyrir því að hafa öðruvísi ákvæði hvað þessi atriði snertir í hlutafélagalögunum annars vegar og í fyrirtækjum með annars konar rekstrarform hins vegar hvort sem það er eins og fjallað er um sameignarfélög, samvinnufélög eða sameignarfyrirtæki eins og þessi tvö stóru orkufyrirtæki eru, Orkuveita Reykjavíkur og Landsvirkjun. Það var niðurstaða mín og þeirra sem flytja frumvarpið með mér að það sama ætti að sjálfsögðu yfir þau að ganga eins og önnur hlutafélög. Það er enginn eðlismunur hér á. Stjórnir þessara fyrirtækja gæta að sjálfsögðu hagsmuna eigenda sinna og eiga að hafa eftirlit með starfseminni sem rekin er í fyrirtækinu frá degi til dags, hafa eftirlit með starfi forstjóra og annarra stjórnenda í fyrirtækinu. Það er tilefni þess að frumvarpið er flutt hér að samræma þessar reglur, samræma reglurnar um sameignarfélög og samvinnufélög og um þessi tvö stóru sameignarfyrirtæki við það sem þegar hefur verið samþykkt og ákveðið með lögum frá því í mars á þessu ári og varðar hlutafélögin.

Ég vænti þess — burt séð frá því að nú kunna menn að hafa skiptar skoðanir um kynjakvótann, hvort eigi að innleiða hann í stjórnir fyrirtækja. Það höfðu menn að því er varðar hlutafélögin. Ef ég man rétt þá studdu t.d. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki þá breytingu þó aðrir þingmenn annarra flokka hefðu gert það. Það kann vel að vera að þeir hafi þá skoðun að það sé ekki rétt að innleiða kynjakvóta en úr því að hann er innleiddur á annað borð, eins og í lögum um hlutafélög, þá geta ekki staðið nein efnisleg rök til þess að hið sama gildi ekki um önnur rekstrarform fyrirtækja eins og hér er lagt til. Ég vænti þess að menn geti tekið undir það að eðlilegt sé að láta hið sama gilda hér og styðji þessa vegna frumvarpið.

Að því er varðar starfandi stjórnarformenn hygg ég að um það hafi verið prýðilega góð sátt í þinginu að gera breytingar á hlutafélagalögunum. Þess vegna vænti ég þess að það sama verði upp á teningnum þegar menn fjalla um þetta frumvarp og breytingarnar sem lagðar eru til á lögunum um Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, samvinnufélög og sameignarfélög.

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið. Það skýrir sig að öðru leyti alveg sjálft. Það er flutt fyrst og fremst til að gæta samræmis á milli mismunandi rekstrarforma stórra fyrirtækja og að því er varðar þessa tvö álitamál um kynjakvótann og starfandi stjórnarformenn. Ég vænti þess að það fái góðar viðtökur í þinginu og í þingnefndinni sem fær málið til umfjöllunar.

Ég ætla að lokum að leggja til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu gangi frumvarpið til hv. viðskiptanefndar.