139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:16]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir mælti hér fyrir tveimur þingsályktunartillögum í einu. Ég ætla að gera þá seinni að umræðuefni hér.

Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir frumkvæðið og framsýni í því að leggja þetta mál fram, um að Vestfirðir verði vettvangur kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvangur rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða. Í fyrstu línum í þingsályktunartillögunni segir:

„Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að skilgreina Vestfirði sem vettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og vettvang rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða, m.a. á sviði atferlis- og veiðarfærarannsókna og þorskeldis. Skilgreiningin verði höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög og stuðning við fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum.“

Hvers vegna skyldi þetta vera með þessum hætti, virðulegi forseti? Í fyrsta lagi: Af hverju er lagt til að þetta starf verði unnið á þessu svæði? Það er vegna þess að þarna er þekkingin, þarna er nálægðin við fiskimiðin og síðast en ekki síst hefur byggst upp samstarf á milli fyrirtækjanna sem starfa á þessu svæði og þessara stofnana. Það segir sig því sjálft og liggur alveg klárt fyrir, a.m.k. í mínum huga, að þetta starf þarf að byggja enn frekar upp.

Þá langar mig að koma aðeins inn á það sem ég tvítók áðan í ræðu minni, að skilgreining sé höfð til hliðsjónar við ákvarðanir um fjárframlög. Nú er staðan þannig með Háskólasetur Vestfjarða að bæði menntamálaráðuneytið og iðnaðarráðuneytið hafa verið að styrkja þessa stofnun eða láta hana hafa fjárframlög þannig að hægt sé að reka hana. Nú gerist það í fjárlögum ársins 2011 að hæstv. menntamálaráðherra sker niður hjá þessari stofnun sambærilegt við það sem hún gerir alls staðar annars staðar en hæstv. iðnaðarráðherra sker styrkinn algjörlega í burtu. Á árinu 2010 voru tæpar 18 milljónir til þessa verkefnis þó það hafi verið samningsbundið og samningur renni út núna. En á árinu 2011 er staðan núll. Ef þetta gengur eftir er mikil hætta á því, og nánast fullvíst, að það merkilega nám sem hefur farið fram þarna, þessi námsleið í haf- og strandsvæðastjórnun, verði skorið burtu. Það eru ekki önnur ráð fyrir forstöðumenn stofnana en að gera það með þeim hætti og það tel ég mjög bagalegt.

Svo að ég blandi mér aðeins inn í umræðu sem átti sér hér stað á milli tveggja hv. þingmanna er hugsunin við þetta sú, eins og kom fram hjá hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, að styðja við það sem verið er að gera á viðkomandi stöðum en ekki dreifa kröftunum um allt. Það þýðir hagkvæmni. Það þýðir meiri árangur, sérstaklega í ljósi þeirra aðstæðna sem við erum í í dag. Það er því mjög bagalegt að annað ráðuneytið sem stendur að þessari stofnun skuli skera styrkinn algjörlega af. Það er mjög bagalegt og setur þetta starf í mikla hættu. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan að hæstv. menntamálaráðherra gerir það ekki.

Við getum síðan rætt endalaust um það hvernig mætti breyta hlutunum. Ég hef t.d. mjög sterkar skoðanir á því með svokallaðan AVS-sjóð. Ég held að það þurfi að rýmka reglur þess sjóðs mjög mikið. Hann er starfræktur í dag með tveimur deildum, annars vegar með samkeppnisdeild og hins vegar með almennri deild. Almenna deildin er að þróast út í það, og hefur reyndar verið það dálítið lengi, að þetta er nánast orðið sjálftaka fyrir eina til tvær ríkisstofnanir þó að einhverjir tveir, þrír eða fjórir til viðbótar fái þar einhverja smápeninga. Til að árétta þetta er á árinu 2010 búið að úthluta út úr A-deildinni 530 milljónum en á sama tíma er búið að úthluta um 100 milljónum út úr samkeppnisdeildinni. Ég mundi vilja ræða það hér hvort hv. þingmenn væru ekki tilbúnir að skoða það að breyta einmitt þessu, þetta fer í uppbygginguna í sjávarútveginum, þetta kemur þaðan og á að fara þangað. Sú starfsemi sem Háskólasetur Vestfjarða sinnir er einmitt til að styðja við og styrkja sjávarútveginn. Mér fyndist að það ætti að skoða það mjög vel (BJJ: Eigum við ekki bara að skoða þetta?) — jú, jú, ég vil gera það og hef lengi talað fyrir því að það verði að útvíkka þetta. Þetta blasir alveg við. Það eru tvær ríkisstofnanir eða nánast ein sem hirðir alla þessa peninga. Staðreyndin er sú að sú ríkisstofnun hefur verið að bæta við sig á sama tíma og við erum að skera niður hjá mörgum öðrum. Það eru staðreyndir málsins. Það er mjög dapurlegt.

Til að árétta það enn frekar erum við með ríkisstofnun, á árinu 2009, sem hafði á fjárlögum og fjáraukalögum ákveðna fjármuni til að reka sig, og það er það sem Alþingi samþykkir, við öll sem sitjum hér þegar við afgreiðum fjárlögin. Reyndin er síðan sú að ákveðin ríkisstofnun fer 15,4% fram úr því sem fjárlagaramminn sagði, bæði í fjáraukalögum og á fjárlögum. (Gripið fram í.) Hvenær skyldu nú hv. alþingismenn komast að raun um þá niðurstöðu? Það verður einhvern tímann á næsta ári þegar við samþykkjum ríkisreikning. Þó ég sé nú ekki að gera lítið úr ríkisreikningnum er ég alveg viss um að það eru ekki margir hv. þingmenn eða hæstv. ráðherrar sem lesa hann spjaldanna á milli, því það er stórt og mikið plagg, enda er „tilgangslaust að skoða það sem er að gerast tveimur árum eftir að það er gert“. En fjárveitingavaldið er hér, ákvarðanatakan er hér og svo er reyndin allt önnur. Þetta er hlutur sem menn verða að skoða betur.

Af því að ég farinn að ræða þennan AVS-sjóð, það er t.d. samkeppnissjóðurinn — tvö merk fyrirtæki til viðbótar koma strax upp í hugann, annars vegar Vör, sem er að vinna mjög metnaðarfullt starf, og eins Biopol. Þessir aðilar hafa getað sótt um en ég hefði viljað sjá að þessi samkeppnissjóður væri mun víðtækari og mætti dreifa honum meira en ekki þessi sjálftaka innan ríkisstofnana þó að þær sinni sjávarútveginum.

Mig langar að hugsa enn frekar um þetta: Hvernig skyldi standa á því að við Íslendingar skulum vera með aðalstöðvar Hafrannsóknastofnunar eða Fiskistofu á Stór-Reykjavíkursvæðinu? Hugsunin er þessi, og það kemur fram í þingsályktunartillögunni, að styrkurinn við Háskólasetur Vestfjarða, ein stoðin, er einmitt starfsemi og veiðarfærarannsóknir sem verið er að vinna á Hafrannsóknastofnun, í útibúinu á Vestfjörðum, á Ísafirði. Hvernig stendur á því að þetta er með þessum hætti. Ég hef velt þessu fyrir mér í mörg ár en hef aldrei fengið rök fyrir því: Af hverju eru ekki stofnanirnar sem eru úti á landsbyggðinni styrktar enn frekar og litla útibúið haft hér? Þetta er mér algjörlega óskiljanlegt. Það er búið til eitt risabatterí hér, síðan eru litlar útstöðvar út um allt og reyndin er oft og tíðum sú að þegar á að fara að skera niður er það alltaf á þessum litlu stofnunum úti á landi af því að þær eru svo óhagstæðar. Þetta eru fáir starfsmenn og þar fram eftir götunum. En þarna eru þekkingin og reynslan og nálægðin við samfélögin sem lifa og hrærast í þessu alla daga. Það myndi að sjálfsögðu styrkja starfsemi stofnunar eins og t.d. Hafrannsóknastofnunar að vera í nálægð við sjómennina og þau samfélög sem byggja á fiskveiðum. Á þessari tækniöld þar sem öll þessi samskipti eru á rafrænan hátt er ekkert því til fyrirstöðu að gera þetta. Það væri líka klárlega miklu hagkvæmara, það er t.d. hagkvæmara að leigja húsnæði úti á landi, það er mikið stabílla. Við höfum margar reynslusögur af því að þegar stofnanir hafa verið fluttar út á landsbyggðina, jafnvel í heilu lagi, hafa það oft og tíðum verið best reknu stofnanirnar. Það er alveg viðurkennt og rannsakað að starfsmannavelta er minni þannig að það er margt sem mælir með því að þetta sé gert.

Af því að við erum að ræða hér Háskólasetur Vestfjarða — ef við mundum styrkja útibú Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði enn frekar þá gefur það auga leið að það mundi líka styrkja þessa starfsemi. Og ef þessi starfsemi á ekki að vera úti á landsbyggðinni, hvaða starfsemi þá? Þar sem þekkingin er og reynslan og nálægðin við miðin.