139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir séum sammála um þessa hluti. Ég er ekki að reyna að koma sökinni yfir á iðnaðarráðuneytið, að það hafi kippt fótunum undan umræddri starfsemi. Auðvitað bera forstöðumenn stofnana sem slíkra, sama hver hún er og hvar hún er, ábyrgð á starfseminni eins og hv. þingmaður benti hér á. Þetta er alveg hárrétt.

Það sem mér finnst mikilvægast — af því að hv. þingmaður gat þess að ég á sæti í fjárlaganefnd og sit þar daglangt þessa dagana a.m.k., og þar sem ég var líka að tala um þennan ákveðna sjóð — er að sjá til þess að það gangi þá jafnt yfir alla. Það er það sem við viljum öll, held ég. En til að svo megi verða þurfum við að skoða grunninn að fjárlögunum miklu betur. Sumar stofnanir hafa komist upp með það í gegnum árin, og það er ekkert að byrja neitt núna, það hefur reyndar minnkað núna, að fara fram úr fjárlögum, það er verið að klippa halann af sumum en ekki af öðrum. Sumir hafa getað farið fram úr fjárlögum og svo er það bara rétt af í fjáraukalögum á hverju ári. En á sama tíma hafa sumir forstöðumenn stofnana sýnt mikla ábyrgð og haldið sig innan fjárlaga og þá er þeim, ef maður hugsar þetta upphátt, kannski refsað fyrir það að halda sig innan fjárlaga, af því að hinir hafa komist upp með það og fá svo að gegna stöðu sinni áfram. Það er einmitt það sem verið var að ræða hér fyrr í dag um annað frumvarp sem snýr að uppsögnum.

Það er mjög bagalegt að bæði sértekjur og líka markaðar tekjur stofnana brengla þetta á mjög stóran hátt. Við ættum að nýta það tækifæri sem nú gefst til að taka þetta allt til endurskoðunar og setja þetta í mikið fastari skorður — alveg sama hvort það er þessi stofnun eða hin sem báðar fengu á sínum tíma þennan styrk vegna byggðarsjónarmiða, að það fari allt undir menntamálaráðuneytið og þar verði þetta allt saman vistað. (Forseti hringir.)