139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[18:34]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta eru fróðlegar umræður. Það var eitt sem ég ætlaði að spyrja um eða gera athugasemd við í máli hv. þingmanns, sem ég hlýddi á með athygli framan af, í ljósi þeirra þingsályktunartillagna sem hér eru fluttar. Mér finnst kveða við nýjan tón í þeim og reyndar er ýmis umhugsun nú að skila árangri í byggðamálum. Hér er lagt til að byggt sé upp á staðnum í samræmi við undirstöðuna sem þar er að finna og þar sköpuð ákveðin sérstaða og sérhæfing eins og lýst er í tillögutextanum.

Síðan datt hv. þingmaður eiginlega í það að lokum og lagði til eins og í leiðinni að auk þess sem felst í þingsályktunartillögunum yrðu nokkrar stofnanir af höfuðborgarsvæðinu fluttar út um landið. Hann nefndi þar ef ég heyrði rétt Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu í samhengi við síðari þingsályktunartillöguna sem fjallar a.m.k. að einhverju leyti um sjávarútveg og Norðurland.

Um það er að segja að höfuðborgarsvæðið hefur þá sérstöðu og býr að þeirri sérhæfingu að vera höfuðborgarsvæði. Þar er miðstöð þjóðlífsins og þar eiga þessar stofnanir heima. Ég vil segja það, þó það sé ekki undantekningarlaust, að flutningur stofnana frá höfuðborgarsvæðinu hefur yfirleitt tekist illa og verið til óþurftar.