139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[19:09]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð nú hrygg að hlusta á þessa ræðu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar og togstreituna sem sett var upp í henni. Hann lýsti því vel og fjálglega hversu gríðarlega mikla þýðingu það hafði fyrir kjördæmi hans að gripið var til skilgreiningar af þeim toga sem hér er lögð til. Slæmt að geta þá ekki unnt öðrum landshlutum slíks hins sama.

Eins og ég sagði áðan er þetta ekki spurning um að taka frá einum til að færa öðrum. Verið er að veita fjármuni til rannsókna, nýsköpunar og atvinnuþróunar, m.a. sértæka fjármuni til byggðarlaga. Tillagan sem hér er lögð fram miðar að því að þeir fjármunir nýtist til skilgreindra verkefna, ekki að fjármunir sem gætu farið í Háskólann á Akureyri fari til Háskólaseturs Vestfjarða heldur að það fjármagn sem á annað borð er veitt inn til Vestfjarða sé nýtt í fyrirframskilgreindum og markvissum tilgangi. Út á það gengur tillagan.

Það er af og frá að svæði á landsbyggðinni sem njóta sérstöðu eins og búsældarlegra skilyrða sem eru góð fyrir landbúnað eða ákjósanleg fyrir ferðamennsku, njóti ekki sérstöðu sinnar þegar veittir eru fjármunir inn á þau svæði til rannsókna og atvinnueflingar. Það er þetta sem málið snýst um.

Svo vona ég að þingmaðurinn hafi ekki verið að gefa það í skyn að ég hafi verið að stela orðrétt tillögunni frá hæstv. núverandi fjármálaráðherra Steingrími J. Sigfússyni, því satt að segja var mér ekki kunnugt um tillöguflutning hans. Þetta var vitneskjumoli í þekkingarsjóðinn hjá mér, því ekki vissi ég af þessu.