139. löggjafarþing — 24. fundur,  10. nóv. 2010.

sérgreining landshlutanna sem vettvangur rannsókna, kennslu og atvinnuþróunar.

83. mál
[19:11]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira en orðið er en það er langur vegur frá því að ég hafi verið að saka hv. þingmann um að hafa hnuplað þessu úr öðrum tillögum sem hér hafa verið fluttar og samþykktar, það er langur vegur frá því. Ég vildi hins vegar vekja athygli á því að sama hugsun lá að baki fyrir 20 árum og mér finnst liggja í tillögunni hér.

Auðvitað myndast togstreita þegar svona mál koma upp. Það er ósköp skiljanlegt. Það kom fram í umsögnum m.a. frá Háskólanum á Akureyri við þetta sama mál á síðasta þingi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Háskólinn á Akureyri fagnar þeim áhuga og vilja til uppbyggingar rannsókna og menntunar í sjávarútvegi sem fram kemur í þingsályktunartillögunni […]“ — þ.e. þessarar sömu tillögu. „Við teljum hins vegar að ekki sé ráðlegt að skilgreina einn ákveðinn landshluta sem meginvettvang kennslu í sjávarútvegsfræðum og rannsókna á málefnum hafsins og strandsvæða.“ Það hefur þegar verið gert eins og ég nefndi hér áðan og eftir því hefur verið unnið.

Áfram segir í umsögn Háskólans á Akureyri:

„Við leggjum því til að Alþingi leggi frekar áherslu á að efla slíka þekkingarsköpun og -miðlun með því að byggja á því sem þegar hefur verið myndað með samstarfsneti því sem HA, sem miðstöð sjávarútvegsfræða hefur byggt upp […].“

Það er ósköp skiljanlegt að spurningar vakni, bæði hjá starfsfólki, rekstraraðilum og stjórnendum háskólans, um hvað búi hér að baki, því vissulega er um sömu áhersluatriði að ræða eins og tillöguflutningurinn sem ég vitnaði í áðan um tilvist sjávarútvegsnámsins á Akureyri byggðist á.