139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

uppsögn fréttamanns hjá RÚV.

[13:35]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Ég vil taka fram að kannski hefur enn ekki allt komið fram um málið. Enn berast fréttir af því hvernig þessa tilteknu uppsögn sem hv. þingmaður vísar til bar að. Það er þó ljóst að aðilum máls ber ekki fullkomlega saman um málsatvik og hvort um sé að ræða einhvers konar trúnaðarbrest þegar kemur að störfum fréttamanna eða ekki.

Þegar við lítum til hlutverks Ríkisútvarpsins ohf. sem miklu skiptir að sé sjálfstæður fjölmiðill án pólitískra afskipta, sem almannafjölmiðill, finnst mér óeðlilegt, þó að ég sem mennta- og menningarmálaráðherra fari með þann þjónustusamning sem gerður er við félagið, að vera með miklar yfirlýsingar um slík mál. Ef við horfum á málið út frá þessum almenna hætti eru auðvitað reglur sem Ríkisútvarpið ohf. hefur sett sér um fréttir og dagskrártengt efni, um þær vinnureglur sem þar ríkja þar sem m.a. er bent á að fréttastofur og dagskrárdeildir séu með sjálfstæðar ritstjórnir, eiganda Ríkisútvarpsins og stjórn sé óheimilt að hlutast til um fréttaflutning eða aðra dagskrá og ýmiss konar vinnureglur þar sem tekið er á almennum fréttaflutningi en ekki beinlínis á starfskjörum fréttamanna. Ég held að í þessu tilfelli sé eðlilegt að Alþingi ræði almennt um starfskjör blaðamanna og fréttamanna á Íslandi. Í sumum Evrópuríkjum eru sérstakar reglur um starfskjör fréttamanna. Það eru ekki sömu reglur sem gilda til að mynda um þau skilyrði sem þarf til að víkja þeim úr starfi og hjá öðrum stéttum. Skriflegan rökstuðning þarf, jafnvel áminningu, þannig að þetta er eitt af því sem ég tel að þurfi að ræða sérstaklega. Við þekkjum að starfskjör blaðamanna og fréttamanna hafa verið mjög viðkvæm á undanförnum árum í ótryggu starfsumhverfi fjölmiðla.