139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

skýrsla ESB um framgang aðildarviðræðna.

[13:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það er afar mikilvægt að það komi fram frá hæstv. utanríkisráðherra að það stendur sem sagt ekki til að framkvæma neina aðlögun á íslenska stjórnkerfinu, reglum eða lögum sem fram kemur að kröfu Evrópusambandsins á sviðum sem eru utan EES-samningsins í því viðræðuferli sem fram undan er. Það þýðir auðvitað að langir tossalistar munu safnast upp. Menn geta kallað þá því nafni sem þeir vilja en það verða tossalistar. Ástæðan er sú að við eigum í þessum viðræðum við Evrópusambandið á allt öðrum forsendum en Evrópusambandið vill eiga viðræður við aðildarumsóknarríki. Evrópusambandið hefur sett þennan strúktúr þannig upp að aðlögunin hefjist strax og fyrir liggur áhugi á að ganga í Evrópusambandið. Hér á Íslandi er auðvitað ekki áhugi á því á þinginu að ganga í Evrópusambandið, heldur einungis að sækja um. Þess vegna eru menn með alla þessa fyrirvara og ætla ekki að gera neinar aðlaganir. Þess vegna verður þetta afskaplega einkennilegt og mér sýnist (Forseti hringir.) að ef hægt er að ljúka viðræðunum á þeim tíma sem menn horfa núna til, kannski á árinu 2013, taki við annað þriggja ára tímabil og síðan annað fimm ára tímabil þangað til evran kemur til okkar.