139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

samgöngumiðstöð.

[13:52]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það eru engin tilefni til að efna til ófriðar um þetta mál. (Gripið fram í.) Það er fullkominn friður um það og við erum að ná farsælli niðurstöðu, fulltrúar Reykjavíkurborgar og fulltrúar ríkisstjórnarinnar, um þetta efni og í góðri sátt við flugrekendur. Ég hef verið sannfærður um það og mér sýnd rök fyrir því að þetta sé hagkvæmari og ódýrari framkvæmd vegna þess að flugplön eru þarna til staðar. Það þarf ekki að reikna mikið til að finna út að það sparar mikla peninga ef við þurfum ekki að steypa dýr og þykk flugplön. Það eru rökin sem ég reiði fram.

Síðan er hitt önnur spurning og önnur umræða hvort heppilegt hefði verið fyrir Reykjavíkurborg að fá hér samgöngumiðstöð. Sú ákvörðun snýr miklu frekar að Reykjavíkurborg en landsbyggðinni þegar á það er litið. Það sem skiptir landsbyggðina máli (Forseti hringir.) er að fá tryggingu fyrir því að flugvöllurinn verði hér áfram og að hér verði aðstaða til að veita flugþjónustunni viðunandi þjónustu.