139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framtíð Reykjavíkurflugvallar og samgöngumiðstöð.

[13:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að þessi frétt um flugvöllinn kom eins og þruma úr heiðskíru lofti, um að slá ætti af samgöngumiðstöðina og það væri komin skýr stefna um að flugvöllurinn færi af höfuðborgarsvæðinu. Ég hef því eins og fyrirspyrjandi á undan mér, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, áhuga á að fá skýrar línur í þetta mál. Hvernig verður unnið úr því í framtíðinni?

Hæstv. ráðherra Ögmundur Jónasson segir í viðtali að þetta hafi verið sameiginleg niðurstaða og hann sé í sjálfu sér ekkert ósáttur við hana, það verði miklu ódýrara að byggja upp á öðrum stað við flugvöllinn. Ég spyr hann hvernig hann líti á það, ætlar ríkið þá að fara í þessa framkvæmd eða verða það lífeyrissjóðirnir eins og var fyrirhugað að yrði með samgöngumiðstöðina? Þetta átti að vera, eins og við getum rifjað upp, ein af þeim stóru framkvæmdum sem áttu að skapa hér atvinnu og áttu að vera eitt fyrsta verkefnið sem yrði farið í einkaframkvæmd í með lífeyrissjóðunum. Þetta var eitt af því sem atvinnulífinu var lofað í tengslum við stöðugleikasáttmálann.

Mörgu er ósvarað í þessu máli. Við þessar aðstæður er kannski mikilvægast að fá skýr svör frá hæstv. ráðherra um það hver næstu skref verða í málinu. Nú eru aðstæður þannig að ríkið er eigandi tæplega 50% lands á þessu svæði þannig að þó að Reykjavíkurborg hafi skipulagsvaldið á ríkið tæplega helminginn af landsvæðinu. Ég sé ekki annað en að það verði alger pattstaða ef það er einhugur á þingi, eða meiri hluti skulum við segja, fyrir því að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni eins og hann á að vera. Borgin kemst ekkert áfram með sínar hugmyndir á þessu svæði nema að takmörkuðu leyti og þetta verður alger pattstaða milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég tel gríðarlega mikilvægt að hæstv. ráðherra haldi vel á þessu máli. Það er mikilvægt fyrir okkur að völlurinn verði og ég er sammála því sem hann segir (Forseti hringir.) í blaðaviðtali í morgun, stór meiri hluti þjóðarinnar er á bak við þetta mál.