139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

málefni fatlaðra.

[14:03]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á að málefni fatlaðra flytjast yfir til sveitarfélaga nú um áramótin. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á, tíminn líður hratt. Frumvarp þar að lútandi liggur fyrir, hefur verið samþykkt í ríkisstjórn og kemur væntanlega inn í þingið fljótlega eftir helgi. Síðan á eftir að ganga frá samkomulagi á milli sveitarfélaga og ríkis sem liggur líka fyrir. Þetta var til umræðu í morgun á samstarfsfundi sveitarfélaga og ráðuneyta á vegum sveitarstjórnarráðuneytisins. Þar kemur fram að það er enginn ágreiningur um þessa tvo þætti.

Hins vegar hefur verið ágreiningur um stéttarfélagsaðild en komið er fram lagafrumvarp sem heggur á þann hnút. Það næst vonandi samkomulag um það á næstu klukkutímum eða dögum þannig ekkert verði að vanbúnaði að ganga frá þessu formlega.

Varðandi stefnumótunina geri ég ráð fyrir að hv. þingmaður sé að vísa til athugasemda sem komu frá Ríkisendurskoðun varðandi framkvæmd á málefnum fatlaðra á undanförnum árum. Það er réttilega bent á að stefnumótun hefur ekki formlega verið afgreidd af þinginu eða ráðuneytinu, en aftur á móti hefur legið fyrir stefnumótun sem sátt hefur verið um og menn hafa unnið eftir þannig að þetta er eitt af þeim verkefnum sem þarf að taka fyrir mjög fljótt. Þar verður byggt á sáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi málefni fólks með fötlun og það liggur fyrir í þessari yfirfærslu að menn ætla að byggja á honum.

Varðandi mat á fötlun er það misjafnt. Það hefur verið samkomulag um greiningar á ákveðnum svæðum. Það er búið að vinna mat sem hefur ekki verið birt, það á eftir að fara yfir varðandi Sólheima, ég hef ekki fengið það sjálfur inn á mitt borð. Aftur á móti er þar um að ræða stofnun sem mun flytjast til sveitarfélaga eins og önnur verkefni sem eru hluti af þessum tilflutningi á umsjón með (Forseti hringir.) málefnum fólks með fötlun.