139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:26]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur í ræðustól talar hann svo ruglingslega að maður veit eiginlega ekki hvar maður á að byrja að svara því sem kemur út úr honum. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um þrjá lagaágallar á þessari þingsályktunartillögu, kallar hana fyrir það fyrsta frumvarp. Hæstv. utanríkisráðherra kýs að fara í tæknilegu hliðina en ekki þá efnislegu. Ég vil bara minna hæstv. utanríkisráðherra á að hann fór sjálfur fyrir því að brjóta hina helgu stjórnarskrá Íslands með því að fara af stað með Evrópusambandsumsóknina alla leið til Svíþjóðar og síðan til Brussel. Það er ekkert ákvæði í stjórnarskrá Íslendinga sem leyfir það fullveldisafsal sem hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin hafa stefnt þjóðinni í. Hann ætti kannski að minnast þess.

Varðandi það sem hér er lagt til. Ég boðaði breytingartillögur. Í fyrsta lagi á þjóðaratkvæðagreiðslan að fara fram í síðasta lagi 28. maí 2011. Hæstv. utanríkisráðherra er líklega að vísa í ákvæði sem stendur í lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu, að líða skuli a.m.k. þrír mánuðir þar til þjóðaratkvæðagreiðsla fer fram frá því að þingsályktunartillaga um slíkt er samþykkt í þinginu. Hæstv. utanríkisráðherra ætti að lesa dagskrá þingsins því að næsta mál á dagskrá er tillaga að breytingum á þeim lögum og hvet ég ráðherrann til að hlusta á framsöguræðu mína í því máli.

Varðandi skoðanakannanir veit ég að hæstv. utanríkisráðherra er að fara á taugum þessa dagana vegna þess að Samfylkingin mælist svo lág í skoðanakönnunum. Framsóknarflokkurinn hagar sér ekki eftir skoðanakönnunum. Framsóknarflokkurinn hagar sér eins og stjórnmálaflokkur en lætur ekki (Forseti hringir.) einhverjar skoðanakannanir sem gerðar eru viku eftir viku raska ró sinni með neitt þó að þær hafi mikil áhrif á Samfylkinguna og hæstv. utanríkisráðherra.