139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:30]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er tæpast svaravert. Málflutningur hæstv. utanríkisráðherra sýnir hvað ráðherrann er kominn út í horn með mál sitt. Hér kemur hann upp talandi um skoðanakannanir eins og þetta mál byggi á einhverjum skoðanakönnunum. (Gripið fram í.) Ég hélt að ég hefði farið yfir það með ráðherranum í fyrra andsvari mínu að málið snerist ekki um skoðanakannanir. (Gripið fram í.) Þetta mál snýst um rétt þjóðarinnar til að segja skoðun sína á því hvort eigi að halda áfram með aðlögunarferlið eða ekki. Hæstv. utanríkisráðherra má eyða þeim tíma sem hann vill í ræðustól og tala um skoðanakannanir en skoðanakannanir bíta ekki á Framsóknarflokkinn og ekki mig persónulega en það gera þær svo sannarlega á Samfylkinguna. Ég get glatt hæstv. utanríkisráðherra með því að Samfylkingin mældist með 9% fylgi í útvarpskönnun Bylgjunnar í gær, 9% fylgi. Það er komið undir rauðvínsfylgið, frú forseti, enda er hæstv utanríkisráðherra mjög ómótt yfir þessu öllu saman.

Ég hvatti ráðherrann til að vera í salnum þegar ég flyt rök mín fyrir næsta máli sem eru lagabreytingar að lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu og ætla ég ekki flytja þá ræðu í andsvari. En það er ekkert sem skiptir máli úr því að forseti þingsins hleypti þessu máli ekki af stað fyrr, ekki fyrr en utankjörfundaratkvæðagreiðslan til stjórnlagaþings var byrjuð. Þetta er orðið of seint, það er búið að framlengja þennan dag til 28. maí 2011. Nú höfum við sex mánuði, frú forseti, til að upplýsa þjóðina eins og utanríkisráðherra fór fram á um þetta mál. ESB-umræðan er þroskuð á Íslandi og hæstv. utanríkisráðherra gerir lítið úr íslensku þjóðinni með því að segja að hún sé ekki tilbúin hvenær sem er til að takast á við málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.