139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:33]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Við ræðum hér athyglisverða þingsályktunartillögu. Við erum að ræða hvort þjóðin eigi að fá að greiða atkvæði um hvort við eigum að halda áfram umsóknarferlinu eða aðildarferlinu, eftir því hvað menn vilja kalla það, að Evrópusambandinu, hvort Ísland eigi að halda áfram á þeirri vegferð.

Ég er lýðræðissinni, ég vil að þjóðin ráði. Ég kaus með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu í júní árið 2009 þegar við greiddum atkvæði um þessa aðildarumsókn. Ég get tekið undir margt í máli flutningsmanns og ég hefði viljað og kosið að þjóðin hefði verið betur upplýst um hvað fólst í þessu aðildar-, umsóknar- eða aðlögunarferli, eftir því hvað við köllum það, áður en sú atkvæðagreiðsla fór fram. Sú fræðsla, miðað við hvað þetta gekk allt hratt í gegn, hefði þurft að fara fram fyrir kosningarnar 2009 og að vissu leyti finnst mér að þjóðinni hafi verið seld einhver hugmynd um ESB sem töfralausn á öllum okkar vanda.

Ég styð málið hins vegar ekki — það er ekki skoðun Hreyfingarinnar, Hreyfingin hefur enga sérstaka stefnu í Evrópumálum — það er mín persónulega skoðun. Hvernig sem að þessu var staðið er málið í ákveðnu lýðræðislegu ferli. Alþingi Íslendinga ákvað að ríkisstjórnin skyldi sækja um aðild að Evrópusambandinu og ég tel ekki rétt að hringla með það. Ég held að við eigum að klára þetta ferli, við eigum að nýta tímann sem í það fer þannig að það nýtist okkur og sé sem best fyrir þjóðina og landið og það er vel hægt.

Bent hefur verið á að ferlinu fylgi ákveðin aðlögun. Ég held að við eigum að líta á þessa svokölluðu aðlögun, sjá hvað í henni felst og beita á hana gagnrýninni hugsun, aðlaga okkur að því sem hentar okkar samfélagi. Annað eigum við að láta bíða og þá getur aðildin sjálf beðið í einhvern ákveðinn tíma. Ef þjóðin í lokin ákveður að við eigum að ganga inn og eitthvað er ógert þá getum við gert það eftir það. Ef það þýðir að við göngum ekki í Evrópusambandið fyrr en tveim, þrem árum síðar, ef þjóðin vill ganga inn, þá er það bara svo. En mér finnst ekkert að því að byrja á að aðlaga eða laga okkar stjórnkerfi eða ráðast í verkefni sem eru til hagsbóta fyrir Ísland og Íslendinga og íslenska stjórnsýslu. Við þurfum að gera þetta með gagnrýninni hugsun, við þurfum að skoða þetta vel og ákveða hvað af þessu hentar okkur og hvort umræddir styrkir sem hafa mikið verið ræddir, svokallaðir IPA-styrkir, henti í þessu verkefni og hvernig við getum nýtt þá sem best fyrir land og þjóð.

Ég er einnig á móti því að kosið sé um þetta mál á sama tíma og kosið er til stjórnlagaþings. Fyrir mér er og á þetta stjórnlagaþing að vera heilagt. Það á að fá alla þá athygli sem það þarf í lok mánaðarins þegar kosningar til þess fara fram og því vil ég ekki að aðrar kosningar fari fram samhliða þeim.