139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög alvarlegur hlutur. Ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi svarið eið að þeirri stjórnarskrá sem er í gildi og engri annarri. Þetta stendur í stjórnarskránni og við höfum svarið eið að henni. Það er ekkert sem segir það að henni verði nokkurn tíma breytt. Við getum ekki svarið eið að væntanlegri stjórnarskrá. Ég ætla að vona að hv. þingmaður endurskoði afstöðu sína, að fara að tilmælum kjósenda sinna þegar hún á að fara eftir sannfæringu sinni. Hún á að vera sannfærð um að Íslandi vegni vel í Evrópusambandinu og þá greiðir hún atkvæði með því ef hún hefur þá sannfæringu. Reyndar er Evrópusambandið eins og hraðlest, það er eins og að hoppa upp á hraðlest því að hún breytist mjög hratt. Eftir 50 ár verður þetta orðið mjög stöðugt og fast ríki eða þá að það hefur gliðnað í sundur. Ég spái því. Ef það verður mjög öflugt og sterkt ríki og algerlega pikkfast þá hefur Ísland ekkert þar um hluti að segja. Það er svona svipað og Grímsey á Íslandi gagnvart íslenska ríkinu. Grímsey hefur ekki mikið að segja, hún er ekki daglega til umræðu, ég vil bara benda á það. Við erum að hoppa á lest sem er á fleygiferð og þeir þingmenn sem taka ákvörðun um það verða að fara að þeirri stjórnarskrá sem þeir hafa svarið eið að.