139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:43]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að blanda sér í umræðuna. Ég ítreka að það stendur ekki til að fara með þessa þjóðaratkvæðagreiðslu inn á stjórnlagaþingskosninguna, tíminn hefur hlaupið frá okkur. Því er lagt til að þessi kosning fari fram í síðasta lagi 28. maí 2011, við höfum rúman tíma.

Þingmanninum var tíðrætt um að hún sé lýðræðissinni. Ég er það líka. Þess vegna legg ég þessa tillögu fram, að mynda þjóðarsátt um það hvort þjóðin fylgi framkvæmdarvaldinu í þessu máli og fái að segja álit sitt á því í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hv. þingmaður talar um að hún vilji ekki hringla með ferlið. Ég vil benda hv. þingmönnum að það er ríkisstjórnin sem er að hringla með ferlið. Það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sem hringlar með þetta ferli. Það kemur fram í stefnuyfirlýsingu Vinstri grænna að Íslandi sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Samfylkingin leggur alla áherslu á að fara inn í sambandið og svo sitjum við uppi með þessa ríkisstjórn, tvíhöfða þurs þar sem annar fer áfram en hinn aftur á bak (Gripið fram í.) eftir því hvernig litið er á þau mál.

Sem dæmi má nefna að þann 24. ágúst sl. lét hæstv. fjármálaráðherra, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Steingrímur J. Sigfússon, hafa eftir sér á blaðamannafundi að það væri alveg á hreinu að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu væri alls ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Talandi um traust á alþjóðavettvangi þá er það ríkisstjórnin sem hringlar með ferlið, ekki hinir óbreyttu þingmenn á Íslandi hvað þá heldur aðrir Íslendingar. Því spyr ég þingmanninn: Er hún ánægð með hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum og telur hún að það sé vænlegt að koma þessari umsókn eitthvað áfram m.a. vegna þess (Forseti hringir.) að í ríkisstjórninni sitja tveir hrunráðherrar sem skemma ímynd Íslands út á við meira en nokkuð annað?