139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[14:46]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að skoðanir þingmannsins á ríkisstjórninni endurspegli ekki skoðun allra þingmanna þegar talað er um að ríkisstjórnin hafi staðið sig skást í þessu máli. Auðvitað vitum við öll að þessi ríkisstjórn er vitavonlaus, er verklaus og kemur engu í verk, en ríkisstjórnin hefur alls ekki haldið vel á þessu máli gagnvart erlendum aðilum.

Við vitum líka eins og t.d. með EFTA-þróunarstyrkinn að það er verið að lögleiða þessar greiðslur, það er til að uppfylla það markmið að Ísland verði hæft umsóknarríki. Utanríkisráðherra dembir inn í þingið EES-reglugerðum og tilskipunum til þess að við verðum hæf sem umsóknarríki og svo er alltaf sagt að þetta sé bara EES að kenna.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti á það í gær að verið væri að skoða Króatíu nú um stundir, hvaða lög og reglugerðir Króatar þyrftu að setja í þjóðþingi sínu til að vera hæfir sem umsóknarríki. Það vill svo til að það eru nánast sömu lög og reglugerðir sem við erum að taka upp í gegnum EES-réttinn en kosið er að líta svo á að þetta heiti eitthvað annað hér á landi, því að hæstv. utanríkisráðherra skýlir sér sífellt á bak við það að við séum aðilar að því. Hægt og rólega er því verið að stíga þessi skref.

Þar sem hv. þm. Margrét Tryggvadóttir er mikill lýðræðissinni eins og hún kom inn á í ræðu sinni, vil ég spyrja hana að því: Kemur hún ekki örugglega til með að segja já við þessari þingsályktunartillögu þegar hún kemur til atkvæðagreiðslu í þinginu þannig að málið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og Alþingi stoppi ekki það réttlætismál að þjóðin fái að segja sitt álit á aðildarferlinu?