139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:09]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú væri fróðlegt að vita hvort einhverjar reglur eru í landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins sem lúta að kattasmölun. Mér er ekki kunnugt um það en áhugavert gæti verið að grennslast fyrir um það.

Þingmaðurinn spyr um fjármagn og hvort ég telji að það geti haft áhrif á afstöðu manna og hvort þau mál hafi verið rædd á vettvangi utanríkismálanefndar. Já, þau hafa verið rædd á vettvangi utanríkismálanefndar en ekki til neinnar niðurstöðu í sjálfu sér en þau hafa komið til umfjöllunar og munu áreiðanlega verða þar áfram til umfjöllunar.

Að sjálfsögðu getur fjármagn, auglýsingar og áróður haft áhrif á afstöðu manna, vitaskuld getur það það, á báða vegu. Þeir sem hafa yfir miklu fjármagni að ráða geta að sjálfsögðu haft nokkuð upp úr því að dæla fjármagni inn á markvissan hátt og náð einhverjum árangri í því að fá stuðning. En það getur líka haft þveröfug áhrif, við þekkjum líka dæmi um að menn gangi svo fram af þjóðinni að það hafi öfug áhrif þannig að hvort tveggja kemur til álita.

Við höfum rætt upplýsingamálin í utanríkismálanefnd. Fjallað er um þau í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Núna er að störfum sérstakur starfshópur á vegum nefndarinnar um upplýsingamálin og ég vænti þess að mjög fljótlega, jafnvel strax á næsta fundi, verði hugmyndir hans um hvernig staðið verði að hlutlausri upplýsingamiðlun á vettvangi Alþingis kynntar og hvernig fjárhagslegum stuðningi við félagasamtök sem vilja leita eftir fjárframlögum í kynningarstarfsemi sína verði háttað. Ég geng því út frá að það verði áfram til umræðu.

Síðan spyr þingmaðurinn um sannfæringuna og hvort úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu geti breytt sannfæringu. Ja, eins og ég sagði áðan: Mín sannfæring er sú að þjóðin eigi að ráða því á endanum þegar upp er staðið hvort við förum inn í Evrópusambandið eða ekki, það er mín sannfæring. (Forseti hringir.) Og ég vil fara að vilja þjóðarinnar þegar hann liggur fyrir á grundvelli þess samnings sem þá verður borinn undir þjóðina.