139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:14]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Afstaða mín og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar í þessu máli er ágætt dæmi um þá ólíku sýn sem er á málinu innan raða Vinstri grænna eða ferlið sem nú er í gangi.

Mig langaði að beina tveimur spurningum til hv. þingmanns, einkum þar sem hann er formaður utanríkismálanefndar. Nú er talað um að ekki sé aðlögun í gangi. Hæstv. utanríkisráðherra hefur líka gert það en í gögnum, m.a. í nýlegri framvinduskýrslu, kemur fram að lýst er þungum áhyggjum yfir því hversu hægt gangi að vinna að því að koma upp greiðslustofnun í landbúnaði og fleiri þáttum. Í framvinduskýrslu Króatíu, sem einnig er að finna á vef Evrópusambandsins, er þáttunum lýst sem hv. þingmaður talar um að Ísland þurfi ekki að gera. Því er lýst hvernig Króatíu gengur að uppfylla þessi skilyrði og kemur skýrt fram að það verður að vera búið að því áður en samningaferlinu lýkur.

Mig langaði að beina því til hv. þingmanns hvort honum sé kunnugt um að Íslendingar séu í öðru ferli en Króatar og þá hvar upplýsingar og ákvarðanir um slíkt sé að finna.

Hin spurningin sem mig langaði að beina til hv. þingmanns er hvort hann telji eðlilegt að Evrópusambandið setji hundruð milljóna í áróðursstarf og hvort honum sé kunnugt um hvaða upplýsingasöfnun Evrópusambandið hafi verið með og er lýst m.a. í Morgunblaðinu og víðar. Hvaða upplýsingasöfnun er Evrópusambandið að vinna hér á landi og veit hv. þingmaður hvort upplýsingarnar og gögnin sem þar liggja fyrir séu opinber og hvort mögulegt sé að nálgast þau?