139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:19]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Á fundum í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd með embættismönnum úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, þeir eru hátt á annan tuginn sem taka þátt í starfinu, hefur ítrekað komið fram af hálfu embættismanna sem komu frá Evrópusambandinu að viðræðuferlið muni stranda ef Ísland neiti til að mynda í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum, sérstaklega landbúnaðarmálum, að taka þátt í þessari aðlögun. Það hefur komið fram í ræðum Stefans Füles að það er mikilvægt að ríki sýni fram á þetta. Ég hlýt að spyrja aftur að því hvort það sé ekki hægt að fá staðfest frá Evrópusambandinu svart á hvítu eða jafnvel frá ráðherraráði að Íslendingar þurfi ekki að gera neitt þessu líkt í aðlögun eða öðru. Það er greinilegt að hæstv. utanríkisráðherra og þeir sem aðhyllast ferlið eru á annarri skoðun en Evrópusambandið á því hvaða ferli er í gangi.

Að lokum langar mig að ítreka spurningu mína sem snýr að upplýsingaöflun sem Evrópusambandið vinnur í hér á landi. Hvort hv. þingmanni sé kunnugt um hvaða upplýsingaöflun þetta sé, hvort þetta séu opinberar upplýsingar, hverjir hafi unnið þetta og hver kostnaðinn sé. Það er eðlilegt að allir hafi aðgang að upplýsingunum þannig að gegnsæi og lýðræði sé tryggt.