139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:33]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásmundi Daða Einarssyni fyrir afar innihaldsríka ræðu. Ég deili svo sannarlega áhyggjum þingmannsins af fjármagninu sem streymir til landsins, um 4 milljarðar, sem eiga að fara í kynningarmál, upplýsingar og stjórnsýslu, boðsferðir og hitt og þetta sem til fellur til þess eins að landsmenn fái glýju í augun. Nóg um það.

Mig langar að spyrja þingmanninn að því þar sem hann fór yfir samanburðinn við Króatíu í ræðu sinni, mjög málefnalegur: Hvernig stendur á því að hæstv. utanríkisráðherra og hv. formaður utanríkismálanefndar geta ekki viðurkennt það fyrir þingi og þjóð að um aðlögun að Evrópusambandinu sé að ræða? Hvers vegna þráast þeir við að viðurkenna þá staðreynd fyrir okkur? Eins og fram hefur komið hefur Evrópusambandið sjálft gefið það út að um aðildarviðræður sé að ræða og engar aðrar undankomuleiðir þaðan frá, það hefur margoft komið fram.

Mig langar líka aðeins að spyrja þingmanninn út í auðlindamál okkar. Hvaða skoðun hefur hv. þm. Ásmundur Daði Einarsson á þeim orðum sendiherra Frakklands á norðurslóðum og fleiri háttsettra aðila í Evrópusambandinu að Evrópusambandið þurfi á Íslandi að halda til að færa því lykilinn að norðurskautinu og þeim auðlindum sem liggja fyrir norðan Ísland, t.d. með opnun siglingaleiðarinnar þegar hún opnast yfir norðurpólinn?