139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:38]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að biðja þingmanninn afsökunar, ég rangnefndi hann áðan. Ég veit auðvitað að hv. þm. heitir Ásmundur Einar Daðason en ekki því nafni sem ég sagði hér. Þetta vill oft skolast til og vonast ég til að þingmaðurinn fyrirgefi mér það.

Ég þakka kærlega fyrir svarið því að við deilum þessari sýn sameiginlega á norðurskautið og norðurpólinn og auðlindirnar sem liggja þar og að sjálfsögðu okkar eigin auðlindir.

Á heimasíðu Evrópusambandsins kemur fram að það er aðeins ein leið inn í Evrópusambandið og það er leið aðlögunar. Aðlögunarleiðin felur í sér að umsóknarríkin lagi sig jafnt og þétt að lögum og regluverki Evrópusambandsins í aðdraganda þess að viðkomandi þjóð gengur í sambandið. Það eru hvorki meira né minna en 90 þúsund blaðsíður sem þetta regluverk hljóðar upp á og um þetta geta allir lesið á heimasíðu sambandsins.

Jafnframt segir þar að það sé álit Evrópusambandsins að ekki sé hægt að semja sig frá aðlöguninni. Því spyr ég enn á ný: Finnst þingmanninum það ekki alveg ótrúlegt að sá málflutningur skuli viðhafður hér á Íslandi að þetta séu bara einhvers konar samræður sem eiga sér stað, samræður sem séu alls ekki skuldbindandi fyrir íslensk stjórnvöld, samræður sem feli ekki í sér aðlögun, og jafnvel er fullyrt að ekki þurfi einu sinni að breyta lögum til að við verðum fullgild í þessum aðlögunarviðræðum? Samt erum við hér með fyrir þinginu í hverri einustu viku margar EES-reglugerðir sem við þurfum að innleiða í íslenskan rétt og svo er verið að tala um að við séum ekki í aðlögunarferli. Hvernig stendur á því að verið er að rugla svona með íslensku þjóðina? (Forseti hringir.) Þess vegna er svo mikilvægt að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu.