139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:49]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þingmaður deilum ekki skoðunum í þessu máli en ég verð þó að segja að ég dáist að því oft og tíðum þegar hún fjallar um þessi mál, hvað hún gerir það af mikilli sannfæringu fyrir hugsjónum sínum.

Hún segir að það sem snýr að aðlöguninni og öðru því um líku sé rugl. Í umræðunni hefur verið vitnað til ummæla frá Evrópusambandinu, og til reynslu Króata í þessu efni. Ég vil benda hv. þingmanni á að ég held að hópur þeirra sem telur að hér sé um aðlögun að ræða fari vaxandi. Ég nefni til að mynda að á nýafstöðnu málefnaþingi Vinstri grænna, sem er einn samstarfsflokkanna og var gríðarlega mikilvægt að margir úr þeim flokki studdu ESB-umsóknina, kom fram í öllum þeim erindum sem þar voru haldin að um skýra aðlögun væri að ræða. Nefna má áskorun 100 flokksmanna, varaþingmanna, formanna svæðisfélaga og fleiri.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að baklandið fyrir umsókninni sé að bresta innan ríkisstjórnarinnar og jafnvel fyrir utan hana og hvort hún sé ekki tilbúin til að setjast niður og skoða málið á nýjan leik.