139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur margoft lýst þeirri skoðun sinni að hann sé sannfærður um að Íslandi sé vel borgið í Evrópusambandinu. Það er sannfæring hv. þingmanns. Nú skulum við gefa okkur að þjóðaratkvæðagreiðslan, sem ég segi að sé ekkert að marka, fari á þann veg að 55% verði á móti því að ganga í Evrópusambandið og 45% verði með því. Ætlar hv. þingmaður þá að segja mér að sannfæring hans breytist, að þá sé allt í einu ekki gott að ganga í Evrópusambandið?