139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[15:58]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur meiri hluta á sunnudögum eins og ég sagði í ræðu í dag, og meiri hlutinn er svo tæpur í þinginu að hann er brothættur eins og egg. Ákveðnir aðilar innan ríkisstjórnarflokkanna og þá sérstaklega Samfylkingarinnar vilja bara lýðræði á hátíðisdögum. Allir tala frjálslega um að þeir vilji senda mál til umsagnar hjá þjóðinni. Þjóðin eigi að hafa síðasta orðið í málum, þjóðin eigi að koma meira að málum með því að segja álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslum. En svo þegar kemur að máli sem svo sannarlega á erindi til þjóðarinnar og okkar allra til að rjúfa kyrrstöðuna sem ríkisstjórnin er búin að koma okkur í, þá vill Samfylkingin ekki fleyta þessum rétti til þjóðarinnar með því að taka þátt í umræðum á Alþingi og samþykkja þingsályktunartillöguna og leyfa þjóðinni að ákveða hvort haldið verður áfram eða ekki.