139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega rétt að þarna er búið að búa til ákveðið kerfi sem getur viðhaldið því valdakerfi sem er í gangi og ég er alveg til í að skoða það. En stjórnmálabarátta kostar sitt og menn vilja ekki heldur að menn fái styrki. Þá er spurning: Hvað gerist þá? Eru það bara ríkir menn og þeir sem hafa efni á að vera á Alþingi sem geta fengið sæti? Menn eru í þeim vanda að stjórnmálabaráttan kostar sitt. Menn vilja ekki hafa styrki. Nú vilja menn ekki heldur hafa fé frá ríkinu og þá er það spurningin: Er Alþingi þá bara upptekið fyrir þá sem hafa efni á því að fara í gang með kosningabaráttu og áróður?

Ég er sannfærður um það, því miður, það er bara þekkt, að áróður hefur áhrif. Við þekkjum kosningabaráttuna í Bandaríkjunum. Þar eru gífurlegir fjármunir í spilinu. Þeir sem ekki hafa gífurlega fjármuni komast aldrei að. Ég óttast þennan mikla fjáraustur því að við erum ekki að tala um einhverja tugi milljóna, við erum að tala um þúsundir milljóna sem eru eitthvað sem við höfum aldrei nokkurn tíma séð hér á landi. Ekki bara það heldur erum við að tala um heimsóknir, fjármagnaðar heimsóknir, flug, hótel og skemmtilegheit — út að borða á kvöldin í Brussel eða einhvers staðar í Evrópusambandinu, þetta er fjármagnað af Evrópusambandinu. Svo heimsækja þeir sveitarstjórnir á Íslandi og bjóða þeim á veitingahús og spjalla við þá sem þar sitja í góðu tómi og sannfæra þá um hvað það sé ægilega gott að vera í Evrópusambandinu og hvað þetta er allt indælt. Það kostar allt fjármagn þannig að ég vil leggja til að þeir sem eru á móti aðild fái jafnmikla peninga.