139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þeir stjórnmálaflokkar á Íslandi sem vilja stunda lýðræði og hafa prófkjör eru ekki margir. Ég veit ekki til að Hreyfingin hafi haft slíkt. Það er bara sest niður á einhverri skrifstofu og pikkað út eitthvert fólk til að fara í framboð, það er nú allt lýðræðið. Ef menn eru með prófkjör þá kostar það heilmikið. Hver frambjóðandi þarf að kynna sig. Hann þarf að segja við kjósendur flokksins, eins og ég við 10 eða 15 þúsund kjósendur í Reykjavík, Sjálfstæðisflokksins: Hér er ég og ég ætla að gera þetta og þetta. Annars veit fólk ekki hvað það er að kjósa í prófkjörum. Þetta kostar allt og það er miklu dýrara að ná til þúsunda eða tugþúsunda kjósenda en ná til einhverra 200 manna eins og Vinstri grænir eða Hreyfingin sem nær til 5 manna sem sitja hinum megin við borðið. Þetta er dálítið vandamál. Ég vildi gjarnan ræða það almennt séð hvernig stjórnmálabaráttan verður fjármögnuð yfirleitt. En það heyrir ekki mikið undir það sem við erum að tala um hér, um Evrópusambandið, nema það að þar er heilmikill áróður í gangi.