139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:23]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Hann lýsti því hvað yrði gert við peningana sem frúin í Hamborg ætlar að gefa Íslendingum þegar aðlögunarferlið fer af stað — það kemur kannski úr svartholi fjármagnskerfis Evrópusambandsins. Endurskoðendur Evrópusambandsins hafa ekki treyst sér til að endurskoða reikninga sambandsins í 16 ár og þar er talað um svarthol því að þar hverfur svo mikið af fjármagni eitthvert út í loftið.

Þar sem Evrópusambandið gerir ráð fyrir að mikil eining sé á meðal umsóknarþjóða um að aðild að sambandinu sé æskileg og þingvilji sé ótvíræður, og fyrst og fremst vilji viðkomandi ríkisstjórnar að ganga í Evrópusambandið, þetta séu þær grunnforsendur sem Evrópusambandið setur sér, ætla ég að spyrja þingmanninn: Hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, kveður upp úr um það á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu 24. ágúst sl. að umsóknin um aðild að Evrópusambandinu sé alls ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal það ekki einkennileg orð? Svo er verið að tala um að það sé hringlandaháttur í þinginu að lýðræðisleg þingsályktunartillaga sé komin fram, hvort við eigum að halda þessu áfram eða ekki, og verið sé að skemma fyrir Íslandi á alþjóðavettvangi með því að tillagan sé komin fram. Finnst hv. þm. Pétri H. Blöndal þessi málflutningur ekki alveg með ólíkindum í ljósi þess að þarna talar forustumaður annars ríkisstjórnarflokksins, formaður Vinstri grænna, og er þar að auki fjármálaráðherra og leiðir ríkisstjórnarsamstarfið fyrir sinn flokk?