139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[16:44]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svar hans og yfirferð. Jú, það er rétt, þingsályktunartillagan er komin fram vegna þessa forsendubrests enda kemur það vel fram í greinargerðinni. Ég vil jafnframt benda á að þjóðaratkvæðagreiðsla er viðurkennd aðferð allra flokkanna. Að vísu tala flokkarnir um það á tyllidögum að hún sé besta lausnin til að fá niðurstöðu í mál en þegar kemur að svo afdrifaríku máli eins og að leggja undir þjóðaratkvæði hvort halda eigi aðlögunarferlinu áfram, fer flokksvélin að hiksta hjá vinstri lýðræðisflokkunum og þá hentar allt í einu ekki að fara með málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mjög skrýtið.

Lögð hefur verið fram breytingartillaga við þingsályktunartillöguna. Henni verður dreift í þinginu í næstu viku. Þar er nú gefinn sá tími sem þarf til að þjóðaratkvæðagreiðslan geti farið fram í síðasta lagi 28. maí 2011. Ég vil benda á að þingmenn, flokkarnir og landsmenn allir hafa því nægan tíma til að kynna sér þessi mál vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði í dag að þetta væri of skammur tími og Íslendingar ættu eftir að kynna sér málið. Ég benti honum á að Íslendingar hafi verið mjög meðvitaðir um Evrópumál allt frá árinu 1992 þegar það komst á skrið að við yrðum kannski aðilar að EES-samningnum sem varð svo raunin. Bankahrunið sem hér varð má jafnvel rekja til þess en það er önnur saga.

Mig langar að lokum að spyrja þingmanninn hvað honum finnst um hvernig ríkisstjórnin kemur klofin fram í þessu máli. Hæstv. fjármálaráðherra sagði á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu 24. ágúst síðastliðinn að umsóknin væri alls ekki á vegum ríkisstjórnarinnar. Hvað finnst þingmanninum um að ríkisstjórnarflokkarnir komi fram eins og (Forseti hringir.) tvíhöfða þurs gagnvart Evrópusambandinu og skapi þessa óvissu og eru ekki (Forseti hringir.) tilbúnir til að standa saman að þessu?