139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[17:02]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég virði að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir komi fram og lýsi því yfir að hún muni segja nei við þingsályktunartillögunni verði hún borin upp til atkvæða. Það sem ég á hins vegar við og óttast er að málið verði svæft í nefnd, það muni ekki koma til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu í þinginu.

Þá langar mig að segja við hv. þingmann: Þegar greitt er atkvæði um hvort einstök mál komist úr nefnd er ekki verið að greiða atkvæði með tillögunum sjálfum. Ég hef margsinnis í stjórnarandstöðu tekið þátt í að klára mál úr nefnd, jafnvel þótt ég greiði svo atkvæði gegn þeim hér í þingsal. Af hverju geri ég það? Jú, vegna þess að í nefndinni er ég að segja að ég telji mál fullrætt þar, ég telji að þangað hafi verið fengnir allir hagsmunaaðilar, allir sem hafa sérfræðikunnáttu og ekki þurfi meira til. Þegar því er lokið er mér einfaldlega ekki stætt á að segja nei við að mál fari til lýðræðislegrar atkvæðagreiðslu á þinginu. Þess vegna segi ég að ég telji það vera tvískinnung, og ég á ekki við hv. þingmann frekar en annan þingmann, ef menn sem ætla að greiða atkvæði í þinginu tefji og stöðvi málið í nefnd. Það er verið að svæfa góð mál trekk í trekk í nefndum og koma í veg fyrir að lýðræðið fái að njóta sín.