139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[17:04]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að það eigi ekki að svæfa mál í nefnd og ég hef sagt það áður hér að ég muni ekki gera það. Ég mun hins vegar segja það í nefndaráliti að ég sé á því að ekki eigi að samþykkja þessa tillögu. Ég vona að það sé alveg ljóst og ég vona að hv. þingmanni þyki það ekki tvískinnungur. (Gripið fram í.)

Síðan vil ég aðeins nefna út af þessu aðildar-, aðlögunar- og umsóknarferli, hvaða nöfnum sem fólk vill kalla það, þá hefur aldrei verið neinn vafi á því þegar eitthvert ríki gengur í Evrópusambandið að það verður að uppfylla þær kröfur, lög og reglur, sem gilda í Evrópusambandinu. Samningaviðræður fara fram ef einhverju þarf að breyta til þess að menn fái tíma til að gera eitthvað eða ef eitthvað nýtt kemur inn eins og þegar Finnar fengu viðurkenndan landbúnað norðan við 62° frekar en 63°. Það er það sem samningaviðræðurnar ganga út á.

Þegar Ísland verður fullgildur aðili að Evrópusambandinu verðum við náttúrlega að uppfylla þær reglur sem þar eru í samræmi við þann samning sem gerður hefur verið. Ég er ekki tilbúin, hv. þingmaður, að segja fyrr en samningurinn liggur fyrir hvort sjávarútvegur eða landbúnaður verði betur settur utan en innan sambandsins. Þess vegna ætlum við að semja. Út á það gengur málið. Þess vegna ætlum við að kjósa þegar samningurinn liggur fyrir.