139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

88. mál
[17:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir þessa ágætu ræðu og fyrir að upplýsa þingheim um hvernig vinnubrögðum hefur verið beitt í þessu mikilvæga máli, einhverju mikilvægasta máli þjóðarinnar, einhverju stærsta skrefi sem þingheimur hefur stigið fyrr og síðar. Nú sjáum við það svart á hvítu að ákvörðunin var ekki tekin á réttum forsendum, hún var tekin á fölskum forsendum með ólýðræðislegum hætti.

Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur verið að kalla hér fram í og bent á og fullyrt að fyrri ríkisstjórnir hafi hugsanlega beitt einhvers konar kúgun. Ég vil í fyrsta lagi biðja hann að koma og segja þingheimi hvað hann á við. Ég vil líka taka fram að það er hópur þingmanna, hópur nýrra þingmanna, sem vill breyta þessu. Ég er ekki sannfærður um að meiri hluti sé fyrir því að taka upp lýðræðisleg vinnubrögð, og útrýma flokksræðinu, en ég ætla að vona og ég ætla að berjast fyrir því að það verði að veruleika. Ég er sannfærður um að það er bara þannig og aðeins þannig sem við munum auka virðingu Alþingis á ný. Við eigum ekki að koma hér, og ég bið samfylkingarmenn að gera það ekki, trekk í trekk og verja eigin gjörðir vegna þess að aðrir hafi hugsanlega verið verri í fortíðinni. Við verðum að breyta vinnubrögðum sama hvaðan þau hafa komið. Það er hlutverk nýrra þingmanna með nýja hugsun að gera það.