139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

99. mál
[17:35]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er undantekningarregla eins og ég sagði áðan. Sveitarstjórnarkosningar koma ekki á óvart því lögum samkvæmt fara kosningar til sveitarstjórnar fram á fjögurra ára fresti en kosningar til Alþingis geta verið rokkandi eins og kom fram árið 2009. Þá var kosið á óhefðbundnum tíma því forseti getur ákveðið að rjúfa þing eða forsætisráðherra ákveður að skila umboði sínu. Þannig að ég get ekki tekið undir það. Ákvæðið er inni og ég get alveg tekið undir með þingmanninum að hafa ákvæðið opið í annan endann, að það sé þá ekki einn eða tveir dagar, það yrði óskynsamlegt. Það er líka óskynsamlegt að hafa þetta matsatriði en lögin eru vel vörðuð af landskjörstjórn. Þau eru vel vörðuð af dómsmálaráðherra, þannig að allar þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa að fara í gegnum þessa aðila. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið skipuleggur þetta.

Ef lagaákvæðið, þessi breytingartillaga, er óskýrt að því leyti að þingmanninum finnst hún opin í annan endann, er sjálfsagt að gera athugasemd við það. En við getum ekki sett lög um allt. Þá væru hér þykkar lagabækur. Þetta verður tekið á skynsamlegan hátt og þá metið í hvert skipti. Ég ítreka enn og aftur að þetta er undantekningarákvæði sem notast aðeins ef þannig aðstæður koma upp, sérstaklega ef forseti rýfur þing.