139. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2010.

atvinnuuppbygging og orkunýting í Þingeyjarsýslum.

102. mál
[18:18]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ástæða þess að sá sem hér stendur er meðflutningsmaður að þessari þingsályktunartillögu er sú að hann telur það sem fram kemur í þingsályktunartillögunni vera raunhæfasta kostinn í stöðu atvinnumála í Þingeyjarsýslum og reyndar á Norðurlandi öllu nú um stundir þegar kemur að orkunýtingarmálum. Það er mjög mikilvægt að tala í atvinnulegu tilliti um raunhæfustu kostina, þá sem skila okkur fyrst og mest mikilli vinnu, fremur en að dvelja við rómantíkina í þeim málum.

Af hverju segi ég þetta vera raunhæfasta kostinn? Verkefnisstjórn um málið hefur í tvígang komist að þeirri niðurstöðu að Alcoa og kínverski álframleiðandinn Bosai séu þar efstir á blaði í A-flokki og í B-flokki komi síður spennandi möguleikar, reyndar einnig á sviði álframleiðslu og gagnavers- og eldsneytisframleiðslu. Í C-flokki séu síðan óljósari hugmyndir.

Það er mikilvægt að hafa raunhæfasta kostinn í umræðunni efst og mest áberandi á blaði. Oft er sagt í þessari pontu að álver sé gamaldagsatvinnukostur. Enda þótt ég sé ekki sérlegur talsmaður álvera og ekki sérlega mikið á móti álverum heldur tel ég ekki réttmætt að afgreiða álver sem gamaldagsatvinnutækifæri, ekki frekar en að sjávarútvegur sé nefndur gamaldagsatvinnutækifæri eða landbúnaður gamaldagsatvinnutækifæri, svo maður nefni tvær meginstoðir íslenskrar framleiðslu nú um stundir. Álver er einfaldlega einn af mörgum kostum í atvinnuuppbyggingu hér á landi og þótt við setjum ekki öll eggin í sömu körfuna hvað það varðar er þessi kostur sá raunhæfasti í stöðunni að sögn heimamanna og að sögn fræðimanna á þessum stað. Það er af þeirri ástæðu sem ég er meðflutningsmaður á þingsályktunartillögunni.

Horfum því næst til þess sem blasir við heimamönnum í Þingeyjarsýslum, jafnt í dreifbýli sem í þéttari byggðum eins og í Norðurþingi, nánar tiltekið á Húsavík, hvernig hafa atvinnumálin verið þar á nýliðnum árum? Hvernig hefur þróun íbúafjöldans verið á undanliðnum árum? Hún er með eftirfarandi hætti: Á meðan landsmönnum hefur fjölgað um 15% frá 1998 hefur íbúum í Þingeyjarsýslum fækkað um 5% á sama tímabili. Störfum hefur fækkað um 32% í þessu blómlega héraði á sama tímabili — um 32% — og svona mætti áfram telja. Fækkun á opinberum störfum og fækkun á störfum sveitarfélagsins mun síðan hafa enn frekari afleiðingar í þá veru á komandi missirum ef hugmyndir í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi ná fram að ganga, sem mun bæði hafa áhrif á opinber störf þar og störf á vegum sveitarfélagsins.

Það er sú atvinnumynd sem blasir við þeim sem þangað koma og er ágætt að nefna í þessu samhengi að við þingmenn kjördæmisins erum nýkomnir af fundi með sveitarstjórn byggðarlagsins, sem er mjög víðfeðmt vel að merkja, og reyndar líka forkólfum margra stofnana á þessu svæði. Við vorum jafnframt á stórum fundi, 1.300 manna fundi, í bæjarfélaginu nýverið. Ein helsta krafan á þeim fundi var í reynd ákaft ákall um atvinnuuppbyggingu, ákaft ákall um varðstöðu um þau atvinnutækifæri sem nú þegar eru til staðar í byggðarlaginu. Orðið hefur 32% fækkun starfa í byggðarlaginu á undanliðnum árum og 15% fækkun íbúa þar á meðan landsmönnum hefur fjölgað um 15%.

Hér þarf viðsnúning, hér þarf að grípa til alvöruúrræða, til raunhæfra úrræða. Það er af þeirri ástæðu sem ég vil láta skoða í þaula þann kost sem efstur er á blaði. Það er svar mitt við áköfu ákalli heimamanna í þá veru. Ég get ekki svarað því ákalli öðruvísi en að skoða raunhæfasta kostinn til þrautar, það er í rauninni starf mitt á Alþingi að hlýða kalli heimamanna í þessum efnum þegar við blasa tölur sem allar benda niður á við, hvort heldur hvað íbúafjölda snertir eða atvinnutækifæri.

Það er mikil orka í iðrum jarðar á þessu svæði og enda þótt menn greini á um það held ég að ljóst sé að sú orka í megavöttum sem komin er í gegnum skipulagsferlið sé um 525 megavött. Fyrsti áfangi í uppbyggingu álvers þýðir u.þ.b. 250–260 megavött og þar tala ég um 180 þús. tonna álver þannig að við tökum ekki alla orkuna í pant fyrir einn kost, enda er ég í sjálfu sér á móti því að álver gleypi allan þann kost sem er í orkumöguleikum héraðsins og vil að horft sé til fleiri möguleika á því sviði. En þegar menn nefna fleiri möguleika á því sviði hafa þeir ekki getað tilgreint aðra raunhæfa kosti en þá sem nefndir eru í tillögu til þingsályktunar um atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum, þessa tvo kosti, Bosai Aluminium frá Kína og Alcoa, sem hefur eins og kunnugt er reist álver á Reyðarfirði og skapað þar hundruð starfa.

Það er mjög mikilvægt að sú orka sem ólgar í iðrum jarðar verði nýtt heimamönnum til heilla. Reyndar hjó ég eftir því í svari nýs forstjóra Landsvirkjunar á fundi hv. iðnaðarnefndar þegar hann svaraði því aðspurður hvort orkan ætti að fara eitthvert annað: Nei, hún verður nýtt í heimahéraði, sagði sá ágæti forstjóri Landsvirkjunar. Og auðvitað nýtum við hana í raunhæfasta kostinn sem nú er inni í myndinni til þess að orkunni verði komið í arð eins fljótt og auðið er og komið til starfa — eða eigum við að bíða? Eigum við að bíða enn um stund eftir einhverju öðru eða eigum við nú þegar að svara ákalli heimamanna um viðspyrnu í atvinnulífinu? Ég held að það sé ekki einasta heimamönnum til heilla heldur og þjóðinni allri að viðspyrna verði í þessu máli og að horft verði til þess kosts sem liggur beinast fyrir. Við getum ekki beðið eftir öðrum kostum, við höfum beðið eftir öðrum kostum í árafjöld en þeir hafa ekki ratað á blöð, þeir hafa einungis verið óljósar hugmyndir í kolli manna. Þess vegna er ég með á þessari þingsályktunartillögu og ég veit fyrir víst að ég tala einnig fyrir hönd formanns hv. iðnaðarnefndar, hv. þm. Kristjáns Lúðvíks Möllers, sem getur því miður ekki verið við umræðuna í dag. Við erum tveir þingmenn Samfylkingarinnar sem setjum nafn okkar við þessa tillögu, ekki síst í ljósi þess að við viljum vera raunhæfir í atvinnuuppbyggingu hér á landi, við viljum bregðast hratt og vel við ákalli um aukna atvinnuuppbyggingu þjóðinni allri til heilla og sérstaklega heimamönnum í þessu tilliti.

Viðsnúningur í atvinnulífi þarf að verða mikill og hraður á næstu missirum vegna þess eins að það er óþolandi að þúsundir manna búi við atvinnuleysi á meðan augljósir orkukostir bíða í iðrum jarðar, græn orka sem bíður þess eins að vera að arði.