139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

afskráning Össurar hf. í Kauphöll Íslands.

[14:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nýsköpunarfyrirtækið Össur hefur nú verið afskráð úr Kauphöll Íslands og fer þar stærsta fyrirtæki sem þar var eftir og fer lítið að verða eftir af íslensku kauphöllinni. Fram kom að fyrirtækið gerir þetta vegna þess að starfsskilyrði á Íslandi eru óviðunandi fyrir útflutningsfyrirtæki og voru þar gjaldeyrishöftin nefnd sérstaklega auk annarra mála. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir að það sé verulegt áhyggjuefni og að það kalli á stefnubreytingu þannig að menn nýti þau tækifæri sem þrátt fyrir allt eru til staðar til að auka veg útflutningsfyrirtækja frekar en hitt? Ég bið ekki um hið augljósa svar ráðherrans um að verið sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu og að allt verði gott þegar það verður frágengið. (Gripið fram í.) Ég spyr hvort ekki þurfi í millitíðinni að reyna að vinna úr þeim aðstæðum sem við erum í og skapa þær aðstæður sem þrátt fyrir allt er hægt að skapa til að efla útflutningsfyrirtækin og þar með talið að huga að þessum gjaldeyrishöftum

Það liggur alveg ljóst fyrir að jafnvel þótt gengið verði í Evrópusambandið og tekin upp evra gerist það ekki fyrr en eftir mörg ár, enda er verið að herða skilyrðin fyrir slíku frekar en hitt. Menn geta ekki beðið aðgerðalausir í 7, 10 eða 15 ár heldur þurfa þeir að bregðast við ástandinu eins og það er núna. Vantar ekki töluvert upp á að ríkisstjórnin bregðist við ástandinu eins og það er núna, í stað þess að bíða og vona að einhverjar breytingar að utan leysi vandann, til að mynda með því að huga að gjaldeyrishöftunum og jafnframt að greiða fyrir fjárfestingu? Nú eru liðin tvö ár sem hefðu átt að vera kjörið tímabil til að fá inn nýja erlenda fjárfestingu á meðan gjaldmiðillinn hefur verið jafnlágt skráður og raun ber vitni. Sá tími hefur ekki verið nýttur. Kallar þetta ekki á stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar?