139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

afskráning Össurar hf. í Kauphöll Íslands.

[14:06]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er hægt að taka undir með hv. þingmanni um að full ástæða er til að hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem orðin er þegar gróið og vel metið fyrirtæki eins og Össur taldi sig þurfa að víkja úr íslensku kauphöllinni. Það er okkur mikils virði að á Íslandi starfi öflug kauphöll, það er okkur mikils virði að reyna að endurreisa kauphallarstarf og koma fyrirtækjum í það horf að þau geti verið skráð í kauphöll.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður vekur athygli á, gjaldeyrishöftin eru sérstaklega skaðleg í þessu tilliti. Hins vegar held ég að honum farist eins og okkur fleirum að standa nokkuð ráðþrota þegar kemur að valkosti við gjaldeyrishöftin við núverandi aðstæður. Staðreyndin er sú að með veikburða fjármálakerfi sem við erum að koma á laggirnar hafa gjaldeyrishöftin verið nauðsynleg en það er líka nauðsynlegt að hafa sýn um hvernig út úr þeim verði komist.

Eins og rakið hefur verið er nú til endurskoðunar áætlun um afnám gjaldeyrishafta en þar eru margar erfiðar spurningar sem spyrja verður, um framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum og peningamálum því að afnám gjaldeyrishafta getur ekki orðið að veruleika nema við höfum skýra sýn um hvert stefnt er í þeim efnum. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að eina augljósa svarið við vandanum sem gjaldeyrishöftin skapa eru öflugur gjaldmiðill, að við fáum almennilegan gjaldmiðil sem er raunverulegur valkostur við þær aðstæður sem við búum við núna því að ég held að ekkert okkar vilji fara aftur til þess tíma þegar við höfðum dansandi veikburða krónu sem dinglaði eftir hagsmunum kaupahéðna en verð hennar byggðist (Forseti hringir.) ekki á forsendum verðmætasköpunar í landinu.